Vefþjóðviljinn 23. tbl. 17. árg.
Það er æði misjafnt hvað stjórnmálamenn ganga langt í því að reyna að kaupa sér stuðning .
Á dögunum barst bæklingur í póstlúgur borgarbúa sem við fyrstu sýn virtist vera frá lottóinu.
Á forsíðu segir: „300 milljónir fyrir þig og þína.“ Aldeilis hvalreki þar.
Á baksíðu er hins vegar mynd af Jóni Gnarri borgarstjóra veifandi til lesenda. Já það er ég sem er að gefa þér og þínum 300 milljónir.
En sem oft áður þá eru Nígeríubréf af þessu tagi of góð til að vera sönn. Og eins og jafnan þegar slík bréf á ferðinni þá er það viðtakandinn sem þarf fyrst að leggja fram fjármuni áður en 300 milljónirnar skila sér.
Í þessu tilviki eru það útsvar og fasteignagjöld ásamt óteljandi „þjónustugjöldum“ fyrir óviðunandi þjónustu eins og sorphirðuna, sem viðtakendur dreifiritsins eiga að leggja fram.
Að vísu hafa slík bréf sem send eru frá Nígeríu það fram yfir bréfið úr Ráðhúsinu að viðtakendur hafa val um það hvort þeir greiða nokkur hundruð þúsund krónur áður en þeir hreppa milljónirnar mörg hundruð.