Vefþjóðviljinn 159. tbl. 16. árg.
Ein helstu rökin gegn núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hafa löngum verið að „skapa þurfi sátt um greinina“. Það var einnig ein ástæðan sem Steingrímur J. Sigfússon nefndi þegar hann lagði fram frumvörp sín um byltingu á stjórn fiskveiða í vor.
Látum það liggja á milli hluta í bili að meðal þeirra sem helst hafa staðið fyrir meintri ósátt um kerfið hingað til eru ýmsir sem hafa áður selt sína aflahlutdeild. Þeir vilja nú komast aftur inn í kerfið í krafti stjórnmálanna, og helst alveg frítt.
Undanfarnar vikur hafa menn getað fylgst með þessari sáttasköpun ríkisstjórnarinnar í umræðum á alþingi og vítt og breitt um þjóðfélagið.
Þykir nokkrum sæmilega sanngjörnum manni sem frumvörp ríkisstjórnarinnar hafi leitt til aukinnar sáttar um sjávarútvegsmál?