Miðvikudagur 6. júní 2012

Vefþjóðviljinn 158. tbl. 16. árg.

Meiri flónin þessir menn. Menn almennt. Alltaf þarf ríkið að hugsa fyrir þá og forða þeim undan glópsku sinni.

Í vikunni höfðu fjölmiðlar það eftir forstjóra Íbúðarlánasjóðs að fólk tæki nú umvörpum óverðtryggð húsnæðislán án þess að gera „sér fullkomlega grein fyrir þeirri áhættu sem felst í þessari skuldbindingu.“ Fréttablaðið hafði eftir forstjóranum að hann væri „hlynntur því að Ísland fylgi fordæmi margra Evrópuþjóða sem hafi sett lög um húsnæðislán í anda laga um neytendalán.“ Í útvarpsviðtali tók Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, undir með forstjóranum.

Já, enn eitt sviðið þar sem fólk má ekki standa á eigin fótum og taka ábyrgð á sér sjálft. Einhverjir munu koma sér í vandræði og það þarf auðvitað að vera mál alþingis. Nýjar reglur, halda í höndina á mönnum, skipta sér af því hvernig þeir semja. Og svo framvegis.

Barnfóstruríkið þenst út. Fleiri og fleiri venjast á það að ríkið sé þarna einhvers staðar og haldi í höndina á þeim. Ef eitthvað reynist þeim illa, þá var það sök ríkisins að hafa ekki bannað það, hafa ekki leiðbeint eða veitt ekki næga aðstoð þegar allt var farið í vaskinn. Fleiri og fleiri gera nú ekkert með það sem þeir kunna að hafa skrifað undir. Það sem er orðið óhagstætt er þar með ósanngjarnt og ólöglegt.

Það þarf ekki fleiri og fleiri lög þar sem sett eru belti og axlabönd á fullorðið fólk. Það sem þarf að gera er að snúa skarpt til baka frá barnfóstruríkinu og treysta fólki til að bera sjálft ábyrgð á eigin málum. Þegar menn venjast aftur af því að treysta á ríkið um alla hluti, þá fer þeim sjálfum fljótlega að vegna betur.