Föstudagur 7. september 2012

Vefþjóðviljinn 251. tbl. 16. árg.

Nú þegar sveitarfélögin senda strætisvagna sína milli landshluta, ætli þess sé þá ekki skammt að bíða að þau hefji einnig innanlandsflug?
Nú þegar sveitarfélögin senda strætisvagna sína milli landshluta, ætli þess sé þá ekki skammt að bíða að þau hefji einnig innanlandsflug?

Sveitarfélögin í landinu standa flest mjög illa fjárhagslega. Skuldir gríðarlega miklar og þrátt fyrir að skattgreiðendur séu á flestum stöðum kreistir eins harkalega og lög frekast leyfa, þá dugir það varla til.

Og hvað gera sveitarstjórnarmenn landsins þá? 

Jú, þeir eyða, eyða og eyða eins og ekkert sé. Það er bætt í eyðsluna á ótal sviðum. Hvergi heyrist af neinum niðurskurði sem raunverulegu máli skiptir. Og ekki einum einasta dettur í hug að skera útgöldin hraustlega niður með það að markmiði að lækka útsvar og aðra skatta sem heimtir eru af skattgreiðendum.

Á dögunum nefndi Vefþjóðviljinn að einungis einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, greiddi atkvæði gegn öllum þremur Icesave-frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Í borgarstjórn Reykjavíkur er ástandið þannig að einn borgarfulltrúi af fimmtán, Kjartan Magnússon, beitti sér gegn brjálæðinu sem gengur undir nafninu tónlistarhúsið Harpa. 

Nýjustu fréttir af sveitarstjórnarmönnum landsins eru að nú eru strætisvagnar farnir að aka um þjóðvegina. Strætisvagnarnir eru farnir að aka frá Reykjavík suðurleiðina til Hafnar í Hornafirði  og norðurleiðina til Akureyrar.

Hefur einhver skattgreiðandi í landinu heyrt þó ekki væri nema einn sveitarstjórnarmann efast um að rétt sé að skattleggja vinnandi fólk í landinu til þess að halda uppi strætisvagnaferðum fimmhundruð kílómetra leið út úr bænum?

Er einhvers staðar einn sveitarstjórnarmaður sem spyr hvaða bilun þetta sé?