Helgarsprokið 2. september 2012

Vefþjóðviljinn 246. tbl. 16. árg.

Hópur manna birti auglýsingu í blöðunum í síðustu viku og hvatti til þess að jörðin Grímsstaðir á Fjöllum yrði „þjóðareign“. 

Enn og aftur kemur áróðursorðið „þjóðareign“, þegar í raun er átt við ríkiseign. Af því að enginn þorir að vera á móti „þjóðinni“ þá segjast áróðursmenn vilja að „þjóðin“ eigi það, sem þeir vilja í raun að ríkið eigi. Svona eins og félag þeirra, sem berjast fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið kennir sig við Ísland en ekki Evrópusambandið. Félag þeirra, sem vilja fremur að Ísland renni inn í evrópskt ríkjasamband en að það sé frjálst og fullvalda, heitir auðvitað „Já Ísland“. 

En það er þetta með „þjóðareignina“. Það hugtak hefur ruglað marga í ríminu. Versti misskilningurinn er auðvitað í sjávarútvegsmálum þar sem hópur manna dregur í sífellu ranga ályktun af því lagaákvæði að fiskimiðin við Ísland séu sameign íslensku þjóðarinnar. Sumir halda í fullri alvöru að aflamarkskerfið, „kvótakerfið“, sé í andstöðu við þessa sameign, sem er ótrúlegur misskilningur eins og sést af því að lagaákvæðið um sameign þjóðarinnar kom einmitt inn í lög í kvótalögunum. Með ákvæðinu er átt við að ákvarðanir um nýtingu fiskistofna og stjórnkerfi sjávarútvegsins séu teknar í samræmi við það sem þykir þjóna almannahagsmunum í bráð og lengd. Að fiskistofnunum sé hlíft við ofveiði og reynt sé að stuðla að því að sem mest verðmæti „komi á land“. Ekki er átt við hefðbundið eignarhald, enda getur „þjóðin“ ekki verið eigandi neins, eins og flestir skynsamir menn sjá þó öðrum finnst auðvitað aukaatriði eða jafnvel „lagatækni“.

Þeir sem nú hvetja til þess að Grímsstaðir á Fjöllum verði í „þjóðareign“, hvernig ætli þeir hafi hugsað sér eignarhald þjóðarinnar á jörðinni? Eign getur „valdið“ tjóni sem eigandi hennar getur verið ábyrgur á gagnvart þeim sem fyrir því verður. Dæmi um það gæti verið ef þakrenna dettur af húsi og lendir á gangandi vegfaranda. Ef þjóðareignin Grímsstaðir á Fjöllum veldur nú einhverjum tjóni, hluti af fasteignum þar fýkur kannski í ofviðri og veldur tjóni annars staðar, hvernig á tjónþolinn að gæta réttar síns? Á hann að fara í mál við „þjóðina“? 

Nei, auðvitað fer hann í mál við ríkið, hugsa flestir og finnst tímaeyðsla að svara svo fráleitri spurningu. Það er ekki hægt að fara í mál við þjóðina, en ríkið svarar auðvitað fyrir hana, bæta þeir svo við. Og skiljanlega. En úr því ekki er hægt að fara í mál við þjóðina – sem auðvitað er ekki hægt – hvernig getur þessi sama þjóð þá átt fasteign? Svarið við því er mjög einfalt. Hún getur það ekki. Þjóðin er ekki fasteignareigandi. Og þjóðin er auðvitað ekki heldur eigandi fiskimiðanna, í skilningi eignarréttar. Það að menn fari í mál við þjóðina er í raun jafn fjarstæðukennt og að hún geti verið eigandi nokkurs hlutar. 

En hvers vegna streitast menn við að tala um „þjóðareign“, þegar allir mega sjá að það hugtak er tómt rugl? Það er vegna þess að þetta orð er áróðursbragð. Menn, sem vilja einfaldlega að hlutir séu í ríkiseigu, vita líka að flestir aðrir skilja að það er yfirleitt ekki gott fyrirkomulag. Þess vegna kynna þeir „þjóðina“ sem eigandann. Það er líka óspart snobbað fyrir „þjóðinni“. Menn þurfa ekki lengi að hlusta á lýðskrumara til að heyra að „þjóðin“ krefst þessa eða hins, og það er einmitt það sama og lýðskrumarinn berst fyrir þá stundina. Allt vald kemur frá „þjóðinni“ er líka vinsæl setning, þótt sjaldan fylgi útskýring á því hvernig það valdaframsal fór fram. Ónefndur forseti Íslands vill ólmur fá allskyns völd sem stjórnarskráin felur honum ekki, og vísar til þess að hann sé „þjóðkjörinn“. Og þannig má áfram telja.

Í þessum anda er krafan um að eitthvað verði í „þjóðareign“ sett fram. Krafan um „þjóðareign“ er einfaldlega enn ein nafnbreyting þeirra afla sem vilja og hafa alltaf viljað hafa sem allra flest í ríkiseigu og sem allra fæst í einkaeigu. Gegn þeim tilhneigingum hlýtur frjálslynt fólk að berjast, hvað sem ríkiseignarsinnar eru að reyna að leggja undir ríkið hverju sinni. 

Í auglýsingunni sem nefnd var í upphafi var hvatt til þess að Grímsstaðir á Fjöllum yrðu „þjóðareign“. Fjöldi  manna skrifaði undir hvatninguna og svo skemmtilega vill til að einn þeirra er einmitt núverandi eigandi jarðarinnar. Ætti honum því að vera auðvelt að láta hvatninguna verða að veruleika, ef hann hefði áhuga á því. Hann þyrfti vart annað en að gefa ríkinu jörðina, til að draumurinn rættist. En það mun hann ekki hafa gert og er það auðvitað skiljanlegt. En hvatningin er þá í raun ekki sú að Grímsstaðir á Fjöllum verði „þjóðareign“, heldur að íslenska ríkið kaupi jörðina Grímsstaði á Fjöllum. 

En hvers vegna þá ekki að segja það berum orðum? Er það af því að þeir eru til sem kinka hugsunarlítið kolli þegar þeir heyra ákallið „Grímsstaðir á Fjöllum verði þjóðareign“, en myndu skilja strax að krafan „Ríkið kaupi Grímsstaði á Fjöllum“ er alls ekki góð hugmynd?