Þriðjudagur 19. júlí 2011

200. tbl. 15. árg.

B oðað er til vinstrigöngu um miðbæ Reykjavíkur annað kvöld. Þar verður þrætt á milli bygginga sem hýst hafa Kommúnistaflokkinn, Sósíalistaflokkinn,  Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkinn, Þjóðviljinn, Samtök herstöðvaandstæðinga og fleiri samtök og útgáfufélög vinstri manna. Af nógu er að taka á þessari þúfu. Guðrún Ágústsdóttir og Svavar Gestsson fara fyrir göngunni.

Meðal þeirra sem gert hafa sögu vinstri hreyfinga á Íslandi gleggri skil en með rómantískri kvöldgöngu um miðbæ Reykjavíkur er Arnór Hannibalsson. Fyrir rúmum áratug ritaði Arnór bókina Moskvulínan um samkrull íslenskra vinstri manna við Kreml. Bókin er því miður löngu uppseld en Vefþjóðviljinn sagði frá útgáfu hennar með þessum orðum meðal annarra:

Fyrir jólin kom út bókin Moskvulínan eftir Arnór Hannibalsson prófessor þar sem hann rakti hvernig íslenskir sósíalistar tóku við línunni frá Moskvu allt frá því upp úr 1920. Niðurstaða Arnórs var sú að þráðurinn hefði í raun aldrei slitnað, ekkert uppgjör hefði farið fram við sósíalismann. Eitt beittasta vopn íslenskra sósíalista var dagblaðið Þjóðviljinn. Þar voru birtar lofrullur um ógnarstjórnina í Sovét og andstæðingar kommúnismans úthrópaðir. Enda hefur nú komið á daginn að glæpamennirnir í Kreml lögðu fé í útgáfuna. Alþýðubandalagið hélt útgáfunni áfram þar til tveimur árum eftir hrun sovétkommúnismans og útgáfufélag Þjóðviljans fór í gjaldþrot. Í forystugrein Þjóðviljans 14. ágúst 1977 sagði :„En gæfa Þjóðviljans og stjórnmálasamtaka íslenzkra sósíalista hefur verið sú, að þráðurinn frá því fyrsta til þessa dags er þrátt fyrir sitthvað sem á milli ber óslitinn. Þótt framtíðin sé verkefnið lifir fortíðin í okkur og við í henni.“

N ú hefur verið greint frá því að öllum verslunum bandarísku bóksölukeðjunnar Borders verði lokað enda fyrirtækið farið í þrot og enginn sem bæði getur og vill taka við leifunum.

Svona fer þegar menn selja ekki Tinna í Kongó.