Mánudagur 4. apríl 2011

94. tbl. 15. árg.

T

Bretar bættu innlánseigendum á Icesave ekki aðeins höfuðstól heldur einnig hina háu vexti sem sparifjáreigendur létu ginnast af. Nú gera þeir kröfu um að íslenskur almenningur beri kostnaðinn af þeim rausnarskap.

vennt mjög áhugavert kom fram í máli Lee Buchheits samninganefndarmanns í Icesave málinu í Silfri Egils í gær.

Annars vegar vakti Buchheit athygli á því að Bretar hefðu ekki aðeins bætt innlánseigendum á Icesave upphafleg innlegg heldur einnig hina háu vexti sem þeir létu ginnast af. Vextirnir voru jafnvel ekki reiknaðir niður í vexti sem aðrir bankar buðu. Þeir sem gerðu þau mistök að leggja fé sitt inn á Icesave fengu þegar upp var staðið betri ávöxtun en flestir þeir sem völdu aðra banka sem buðu lægri vexti en gátu staðið við þá. Aldrei hefur komið fram hve hátt hlutfall Icesave kröfunnar þessir vextir eru en þegar hvert prósent er um tíuþúsund milljónir króna skiptir þetta töluverðu máli.

Hins vegar kom það fram í máli Buchheits að beiting heimilda í hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum og íslenska ríkinu hefði ekki verið tekin með reikninginn þegar samið var við Breta um Icesave málið. Það er auðvitað mjög sérstakt að þetta mál hafi ekki verið gert upp samhliða hinu helsta ágreiningsefni Breta og Íslendinga sem upp kom í byrjun október 2008. Hafi íslensk stjórnvöld brotið á Bretum með því að bæta þeim ekki innstæður á Icesave þá verður að hafa í huga að þeim var það nauðugur einn kostur. Íslenska ríkið átti enga möguleika á að reiða fram 700 milljarða króna í evrum og pundum haustið 2008, þótt það hefði fegið viljað. Bretar gengu hins vegar alltof langt með beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum. Engar nauðir ráku þá til þess.

Nú hafa íslensk stjórnvöld fallist á allar kröfur Breta vegna Icesave en Bretar hafa ekki svo mikið sem beðist velvirðingar á beitingu hryðjuverkalaganna og annarri ófrægingu þeirra um Íslendinga haustið 2008.

M

Gordon Brown seldi 60% af gullforða Breta á útsöluverði en lagði svo hald á gullforða Íslendinga.

eðal þeirra eigna Íslendinga sem Bretar frystu með vísan til varna gegn hryðjuverkum í byrjun október 2008 voru þeir góðmálmar íslenska ríkisins sem geymdir eru í góðri trú í Englandi. Var gull talið upp fyrst á lista yfir það sem fryst var.

Þótt þetta sé fyrst og fremst til marks um offorsið í aðgerðum Breta gegn Íslendingum er það öðrum þræði spaugilegt að Gordon Brown hafi seilst í gullforða Íslendinga. Áhugi hans á því að tryggja breska ríkinu gull hefur ekki alltaf verið svo eindreginn. Þegar hann var fjármálaráðherra Breta á árunum 1999 – 2002 seldi hann 60% af gullforða Breta, alls um 400 tonn, á verði sem var hið lægsta í 20 ár. Fyrir þá aðgerð hefur hann hlotið mikla gagnrýni og núverandi stjórnarandstöðuþingmenn Verkamannaflokksins mega vart opna munninn um stöðu ríkisfjármála án þess að vera minntir á þessa einstæðu útsölu sem fyrrum fjármálaráðherra þeirra stóð fyrir.