H elgarsirkusinn kallar á nokkra Andríkispunkta.
Við gjaldþrot stóru bankanna þriggja varð til ný krafa frasamanna, sem ímyndarfræðingar hafa óspart ráðlagt og reglulegir viðskiptavinir þeirra trúað: Viðurkenna mistök. Bara einhver mistök. Það lítur svo illa út að viðurkenna ekki mistök. Munið að viðurkenna mistök. – Jæja, ríkisstjórnin og úteyjar hennar eins og Siv Friðleifsdóttir, hafa fengið glænýja ástæðu til að fara að slíkum ráðleggingum. Stjórnlagaþingshugmyndin og flest í kringum hana var ævintýraleg della. Nú er tilvalið að viðurkenna mistök og reyna að lágmarka tjónið með því að hætta við ruglið.
Stjórnlagaþingskosningin er einstakt kjaftshögg á hinar talandi stéttir. Undanfarin ár hefur hópur álitsgjafa og malara farið mikinn í þjóðmálaumræðunni. Þessi hópur hefur trúað því að hann tali fyrir nútímann, fagmennskuna, skynsemina og þjóðina. Ljósvakamiðlarnir eru fullir af þessu fólki, sem talar hvert við annað og endurómar skoðanir sínar og vina sinna í sífellu. Þetta fólk hefur talað fyrir „endurskoðun stjórnarskrárinnar“, fyrir stjórnlagaþingi, fyrir persónukjöri, fyrir því að landið verði eitt kjördæmi, gegn fulltrúalýðræði og gegn „flokkunum“, sem þetta fólk kennir um flest sem miður fer. Þetta fólk fékk raunveruleikann á snúðinn á laugardaginn.
Í löngum áróðursþætti Ríkisstjórnarsjónvarpsins á fimmtudagskvöldið var meðal annars langt viðtal við Guðrúnu Pétursdóttur, formann stjórnlagaþingsnefndar ríkisstjórnarinnar. Meðal annars sagði Guðrún að „núna reynir á hvort að Íslendingar vilja prófa persónukjör í staðinn fyrir að kjósa flokka“. Ætli ekki megi segja að kjósendur hafi tekið hana á orðinu, þótt álitsgjafarnir muni reyna að láta eins og þeir hafi ekki séð svarið.
Fleira mjög áhugavert var í þættinum. Þar var talað við Björgu Thorarensen sem situr í sérfræðingahópi sem nú semur stjórnarskrárdrög fyrir stjórnlagaþingið. Hún var spurð um hvað gerðist eftir stjórnlagaþingið, hvaða umboð það hefði. Og hún svaraði: „Nei, það veltur talsvert mikið á því tel ég, hvernig ferillinn verður núna í framhaldinu, hversu mikill stuðningur er á bak við stjórnlagaþingið, hversu mikil kosningaþátttakan er, hversu mikið umboð þetta hefur til þess að endurspegla vilja þjóðarinnar.“ Einnig hér blasir niðurstaðan við öllum mönnum.
Nú hefur skotist fram ný furðukenning og hafa sérfræðingar eins og Guðrún Pétursdóttir og ritstjóri Fréttablaðsins reynt að halda henni fram: Ef að kjósendur hefðu viljað láta í ljós andstöðu sína við framtakið, þá hefðu þeir átt að gera það „með hefðbundnum hætti“ og skila auðu. Það er fráleit kenning. Auður seðill er ekki andstaða við þingið sem kosið er til, heldur fyrst og fremst við þá frambjóðendur sem eru í boði. Kjósandinn samþykkir kosninguna og formið, fer á staðinn, tekur við kjörseðli og setur í kjörkassann. Hann telur hins vegar engan frambjóðanda verðskulda atkvæði sitt umfram aðra og kýs engan. Sá sem hins vegar samþykkir alls ekki kosninguna sjálfa eða þingið sem kosið er til, hann tekur mun frekar þann kost að sitja heima – nema hann mæti á kjörstað og kjósi þá frambjóðendur sem hann telur sama sinnis.
Og hvernig hafa fjölmiðlamenn farið með þá kjósendur sem hafa mótmælt „með hefðbundnum hætti“ og skilað auðu? Til er dæmi um gríðarlegan fjölda auðra seðla. Í forsetakosningunum 2004 var engin opinber barátta fyrir því að menn skiluðu auðu. Engu að síður tóku 28.000 kjósendur þann kost. Og hvernig tóku fréttamenn á því? Jú, af sínu hefðbundna hlutleysi og sannleiksást. Þeir gerðu eins lítið úr auðu seðlunum og þeir gátu: „Ólafur Ragnar Grímsson var endurkjörinn forseti Íslands í gær með 85,6% atkvæða“ sagði Þóra Arnórsdóttir í Ríkissjónvarpinu. „Hin opinberu úrslit forsetakosninganna eru á þessa leið: Ólafur Ragnar Grímsson hlaut 85,6% atkvæða“ sagði Stöð 2. Ríkisútvarpið fór sömu leið, lagði höfuðáherslu á hlutfall Ólafs Ragnars hjá þeim sem kusu einhvern frambjóðanda, en gerði sem minnst úr auðu seðlunum. Þannig voru þeir meðhöndlaðir sem þá „mótmæltu með hefðbundnum hætti“.
Á laugardaginn sögðu spunamenn frá því að hinn illi Sjálfstæðisflokkur sendi út mikla lista til flokksmanna um það hvernig þeir ættu að kjósa. Umræðuvefirnir fylltust af stóryrðum nafnleysingja, en á ábyrgð ritstjóra vefjanna, þar sem þess var meðal annars krafist að Sjálfstæðisflokkurinn yrði bannaður. Daginn eftir kom í ljós að kosningaþátttakan var nær engin. Spunamenn voru fljótir að átta sig á skýringunni: Hinn illi Sjálfstæðisflokkur hafði verið alveg á móti kosningunni og ekki viljað að sínir menn mættu á kjörstað.
Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hunsar kosningu til stjórnlagaþings. Þeir sem ná „kjöri“ hafa lítið sem ekkert umboð og eru vafalaust flestir kosnir út úr neyð þeirra sem þó mættu. Móralskt umboð stjórnlagaþingsins er ekkert. Rekstur þess myndi kosta hundruð milljóna úr bláfátækum ríkissjóði. Nú eiga alþingismenn að hafa manndóm til að viðurkenna mistök sín og hætta við vitleysuna áður en meginþungi kostnaðarins skellur á, í öllum sínum óþarfa. Jafnvel þótt þeim yrði formælt á „umræðuvefjunum“.