S kafti Harðarson frambjóðandi til stjórnlagaþings vekur athygli á því á Eyjunni í vikunni að lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda séu uppskrift að einokun.
Þann 17. nóvember barst mér (og líklega öðrum frambjóðendum til stjórnlagaþings) ábendingar Ríkisendurskoðunar um hvernig fara skuli með uppgjör kostnaðar og styrkja vegna framboðs til stjórnlagaþings. Áréttað er að frambjóðendur mega aðeins eyða 2 miljónum króna til að koma sér á framfæri. Þannig eiga allir þeir sem sem starfað hafa við fjölmiðlum og/eða verið áberandi á þeim vettvangi auðvitað mun betri möguleika en aðrir frambjóðendur. Og þetta gildir auðvitað ekki bara um þessar kosningar.
Með svipuðum kröfum til frambjóðenda almennt í íslensku stjórnmálalífi tryggjum við að erfitt er um alla nýliðun í prófkjörum og nánast vonlaust fyrir nýja flokka að koma málstað sínum á framfæri. Kosningar munu tryggja sitjandi öflum gott forskot, en aðeins gefa fréttamönnum og öðrum í fjölmiðlum góða stöðu, vegna þess hversu fyrri störf voru áberandi. Þá hafa stjórnmálaflokkarnir úthlutað sjálfum sér ómælt fé um leið og þeir takmarka möguleika nýrra aðila til að afla sér fjár til kynninga. |
Til viðbótar þeim hömlum sem Skafti nefnir er frambjóðendum aðeins heimilt að þiggja 200 þúsund króna styrk frá einstaklingum og 400 þúsund krónur frá lögaðilum. Ríkisendurskoðun birtir svo nöfn þeirra lögaðila sem leggja fé til stjórnmálastarfs.
Skrifstofumaður sem hefur mikið dálæti á frambjóðanda og hefur ekki önnuð ráð en fjárráð til að styðja hann má veita stuðning upp á 200 þúsund krónur. Þáttarstjórnandi hjá RÚV getur hins vegar hossað frambjóðanda út í eitt í þáttum sínum og fengið hann hvað eftir annað í viðtöl. Meðalverð á auglýsingamínútu í Ríkissjónvarpinu er um 400 þúsund krónur. Nokkrar mínútur í Kastljósinu geta því verið milljóna króna virði. Ódýrasta auglýsingamínútan í ríkissjónvarpinu kostar 75 þúsund krónur. Það er væntanlega í kringum dagskrárefni sem fáir horfa á eins og Silfur Egils. Þegar Egill Helgason ákveður að bjóða frambjóðanda í sjónvarpssal er hann engu að síður að styrkja hann um nokkur hundruð þúsund krónur – og þar að auki af annarra manna fé.
Fyrr en síðar hlýtur einhver að láta á það reyna fyrir dómi hvort það standist að meina öllum nema ríkinu sjálfu og fjölmiðlum að styðja stjórnmálastarf.
Skafti Harðarson hefur viðrað skynsamlega sjónarmið varðandi fleira en þetta mál. Hann hefur skoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og þessu endemis stjórnlagaþingi sem fellur að því sem Vefþjóðviljinn hefur sagt að undanförnu.
Engum kjósanda mun auðnast að kynna sér alla 535 frambjóðendur til stjórnlagaþingsins að nokkru gagni enda hafa afar fáir þeirra reynt að kynna sig fyrir almennum kjósendum undanfarið. En auk Þorsteins Arnalds og Skafta Harðarsonar hefur Vefþjóðviljanum auðnast að koma auga á að Brynjólfur Sveinn Ívarsson, Elías Blöndal Guðjónsson, Garðar Ingvarsson, Ólafur Torfi Yngvason, Patricia Anna Þormar, Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson, Vilhjálmur Andri Kjartansson og Þorvaldur Hrafn Yngvason hafa sitthvað skynsamlegt til málanna að leggja.