S umir halda að Kristján Möller hafi hlaupið á sig á lokastundum sínum sem samgönguráðherra, og svokallaður samstarfsmaður hans, Steingrímur J. Sigfússon, hefur ekki hikað við að lítillækka hann opinberlega. Á lokamínútum sínum í ráðuneytinu fól Kristján flugmálastjórn að vinna áfram að málefnum erlends fyrirtækis sem vill fá aðstöðu fyrir flugmannaþjálfun á Keflavíkurflugvelli, og þar sem flugmennirnir fá réttindi til að fljúga orrustuþotum þá fara vinstrigrænir á taugum við tilhugsunina.
En Kristján sendi ekki fyrirmæli sín út í bláinn. Eitthvað verða vinstrigrænir að fá í ríkisstjórnarsamstarfinu. Vinstrigrænum er skipað að kyngja óafturkallanlegum hlutum eins aðlögun íslenska lýðveldisins að ríkjabandalaginu sem Samfylkingin og Benedikt Jóhannesson vilja ganga inn í. Þeim er líka skipað að tryggja að íslenskir skattgreiðendur gangi að ósekju í ábyrgð fyrir mörg hundruð milljarða króna skuld einkafyrirtækis, en slík ábyrgð myndi rýra lífskjör Íslendinga gríðarlega næstu áratugi.
Þessum og fleiri hugðarefnum alþjóðasinnaðra krata eiga vinstrigrænir að kyngja, svo Össur Skarphéðinsson geti gengið í Evrópusambandið. Vinstrigrænir eiga að svíkja öll helstu loforð sín og kveðja trúverðugleika sinn fyrir fullt og allt, og eitthvað vilja jafnvel þeir fá fyrir slíkt. Og þá er hlægilegt mál, eins og það hvort einhverjir flugmenn verða þjálfaðir í Keflavík, alveg tilvalið. Kristján Möller fer úr ráðuneytinu og skilur við málið eins og allt sé að verða klappað og klárt. Þá kemur Ögmundur Jónasson og sýnir sko hvað í honum býr. Hann bara skellir í lás, Steingrímur J. Sigfússon talar digurbarkalega um að þessi Möller sé lítill karl, en stuðningsmenn vinstrigrænna kinka kolli og segja hver við annan að þrátt fyrir allt skipti nú töluverðu máli að réttir menn séu í stjórn.
Á meðan flýgur Össur hlæjandi til Brussel og aðlögunin er keyrð áfram.