Ý msir munu ætla að kjósa Besta flokk Jóns Gnarrs, Einars Arnar Benediktssonar og fleiri, þar sem að þeir vilji ekki að „atvinnustjórnmálamenn“ stýri borgarmálunum.
Hlýtur það ekki að kalla á að fjölmiðlar spyrji væntanlega borgarfulltrúa Besta flokksins hvort þeir hyggist þiggja laun fyrir setu í borgarstjórn?
E ins og Vefþjóðviljinn hefur áður sagt, þá telur hann ofmetið hversu mikil landsvísu-skilaboð kjósendur muni senda í komandi kosningum. Fylgi Besta flokksins í Reykjavík er vafalaust dómur margra kjósenda yfir núverandi frambjóðendum annarra flokka, en mun síður dómur yfir stjórnmálaflokkum á landsvísu.
Engu að síður þá munu eflaust margir kjósa Besta flokkinn til þess að lýsa óánægju sinni með stjórnálaflokkana í heild sinni. Það þarf raunar ekki að koma á óvart – en ekki endilega vegna þess að stjórnmálaflokkarnir séu svo ómögulegir. Þótt mjög séu þeir misgóðir og enginn fullkominn, þá hafa þeir kallað yfir sig stemmningu eins og þá sem fær fjölda fólks til að kjósa Jón Gnarr, Einar Örn og félaga.
Undanfarin misseri hafi stjórnmálaflokkarnir eiginlega beðið um að verða flengdir. Þeir misstu skyndilega allt sjálfstraust og neita nú allir að bera hönd fyrir höfuð sér. Ímyndarfræðingar segja þeim að „sýna auðmýkt“ og að krafa dagsins sé að „játa mistök“. Lýðskrumarar innan þeirra ganga á undan og koma sjálfum sér í viðtöl þar sem þeir þykjast ganga á undan í auðmýkt og játningum. Enn sem komið er þora flokkarnir ekki einu sinni að mótmæla því að Ríkisútvarpið haldi úti þáttaröðum þar sem valdir viðmælendur koma í röðum að endurtaka sömu þulurnar og ganga upp úr stjórnendum þáttanna: „Flokkarnir eru ömurlegir“. „Fjórflokkurinn er ónýtur“. „Enginn játar mistök“.
Undir þessu sitja flokkarnir eins og barðir hundar og emja: Já við erum ömurlegir, við erum í kreppu. Við skulum láta lítið fyrir okkur fara. Við skulum ekki auglýsa mikið. Við höfum gert mistök. Við megum ekki gagnrýna nýju framboðin, þau mega bara gagnrýna okkur.
Og svo skilja menn ekkert í því að illa gangi. Stjórnmálaforingjarnir leita í örvæntingu til ímyndarráðgjafanna sem segja þeim að síðustu játningar hafi greinilega ekki þótt nógu einlægar svo nú verði að bæta í. Sýna auðmýkt. Játa mistök. Fara í naflaskoðun.
H inn íslenski tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta var stofnaður með lögum árið 1999. Það var gert í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins þar um. Hvorki Evrópusambandið né eftirlitsstofnanir gerðu athugasemd við stofnun sjóðsins. Það hvarflaði heldur ekki að nokkrum manni að settur væri upp sérstakur sjóður í þessum tilgangi ef ríkið ætti hvort eð er að bæta glataðar innstæður.
Nú hefur Eftirliststofnun EFTA (ESA) gefið það álit sitt að það sé brot á EES-reglum að sjóðurinn hafi tæmst við nær fullkomið hrun bankakerfisins á Íslandi. Að því tilefni hefur hún sent íslenskum stjórnvöldum „áminningarbréf“ og minnt þau á að til séu skattgreiðendur á Íslandi sem skattleggja megi í þágu sjóðsins. Að vísu eru slíkar fjárhæðir í erlendri mynt ekki til á Íslandi. En ESA hefur talað. Per Sanderud, forseti ESA, segir mikilvægt að neytendur viti að peningar þeirra séu öruggir. En hvað með skattgreiðendur, hvenær fá þeir öryggi fyrir sífelldum tilraunum til að velta mistökum fjárfesta og sparifjáreigenda yfir á þá? Það er óþægilegt að hlusta á þessi skilaboð frá mönnum sem sitja á háum launum í skattfrelsi alþjóðastofnana, eiginlega ógeðfellt. Þeir tala eins og fólkið sem borgar launin þeirra sé vart til.
Og ESA já. Þarna er enn eitt eftirlitsbáknið sem átti að sjá til þess að allar reglur virkuðu.
ESA getur ekki aðeins skoðað mál að ábendingum heldur einnig að eigin frumkvæði. Hvað var ESA eiginlega að gera fram á þennan dag? Í áratug hefur blasað við að íslenski tryggingarsjóðurinn gæti ekki mætt nema mjög takmörkuðu tapi innlána. Svaf ESA á verðinum? „Brást hún eftirlitsskyldu sinni“? Hvenær ætla menn eiginlega að axla ábyrgð á þeim bænum, segja af sér og biðjast velvirðingar á tilveru sinni?
Eitt megin eftirlitshlutverk ESA er að gæta þess að ekki séu veittir ríkisstyrkir. Nú kemur stofnunin æðandi og heimtar að íslenska ríkið dæli ríkisstyrkjum í tryggingasjóðinn. Stofnunin fer vinsamlegast fram á að íslenski skattgreiðendur bæti 3,44 milljörðum evra í sjóðinn hið fyrsta. Það eru 550 milljarðar króna á núverandi „gengi“ Seðlabanka Íslands.
Það var rangt af íslenska ríkinu að bæta innstæðueigendum á Íslandi tap sitt við fall bankanna. Það var rangt að dæla fé í peningamarkaðssjóði bankanna. Það var rangt gagnvart íslenskum skattgreiðendum sem sitja uppi með hluta reikningsins. Það ranglæti gagnvart íslenskum skattgreiðendum verður ekki leiðrétt með því að þeir taki á sig annan skell vegna sparifjáreigenda í Bretlandi og Hollandi.