E f Íslendingar dyttu í lukkupottinn á morgun og tekjur og eignir allra landsmanna hundraðfölduðust í einni svipan yrði til stórkostlegt vandamál að mati Stefáns Ólafssonar prófessors og Indriða H. Þorlákssonar fyrrverandi ríkisskattstjóra. Vandamálið væri tvíþætt.
- Annars vegar myndu vaxta- eða barnabætur falla að mestu leyti niður því þær eru tekju- og eignatengdar.
- Hins vegar myndi það hlutfall launa sem menn greiða í skatt í flestum tilvikum hækka í nær 35,7% en svo hátt hlutfall greiða fáir í dag.
Það mætti því með nokkrum sanni segja að „skattbyrði“ barnafólks sem er að koma sér þaki yfir höfuðið myndi snarhækka.
Í öllum tilvikum hefðu menn þó stórbætta afkomu. Og er það ekki fremur ánægjuefni en ástæða til umkvörtunar þegar hagur manna vænkast svo að þeir eiga ekki lengur rétt á vaxta- og barnabótum?
Það er aðeins ein leið til að koma í veg fyrir að hagsæld og launahækkanir leiði til aukinnar skattbyrði. Hún felst í því að leggja af tekjutengdar bætur og afslætti og taka þess í stað upp flatan tekjuskatt. En það vilja Stefán og Indriði reyndar ekki.