Miðvikudagur 12. mars 2008

72. tbl. 12. árg.

F ormaður tollvarðafélagsins var þungur á brún í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Hann telur að boðaður sparnaður hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli leiði til þess að Ísland verði „opið hús“.

Formaðurinn sagði jafnframt að gengi sparnaðurinn eftir yrði „algert hrun á starfsemi tollsins á Keflavíkurflugvelli“.

Með fréttinni fylgdu myndir af tollvörðum að störfum á flugvellinum. Einn þeirra gægðist í poka fullan af sælgæti úr verslun þeirri sem ríkið rekur fyrir ferðalanga á vellinum. Annar setti litla skærbleika ferðatösku í gegnumlýsingu, vafalaust í þeirri von að uppræta of stóran skammt af snyrtivörum eða undirfötum þótt það blasti við öllum sæmilega skynsömum mönnum að þarna hefur einhver úr staðalímyndarhópi femínistafélagsins verið á ferð með fulla tösku af bæklingum um vonsku karlkyns.

Án þess að angra venjulega ferðalanga með hnýsni af þessu tagi væri Ísland víst „opið hús“ að mati formanns tollvarða. En væri það þá ekki bara eins og í flestum löndum sem Íslendingar heimsækja? Hvar nema á Íslandi þurfa ferðamenn kerfisbundið að opna sælgætispoka fyrir opinberum starfsmönnum? 

Og hver er svo hinn hrikalegi niðurskurður sem formaðurinn telur að leiði til algers hruns? Jú fjárveiting ríkisins til tollsins á að lækka um 1% á milli áranna 2007 og 2008.

Hinn 1. janúar 2007 voru embætti lögreglu, sýslumanns og tollstjóra á Keflavíkurflugvelli líka sameinuð. Það hefur vonandi verið gert meðal annars í þeim tilgangi að hagræða og spara með tíð og tíma. Er því ekki miklu nær að spyrja hvers vegna sparnaðurinn nemur aðeins 1% milli ára?