Fimmtudagur 10. apríl 2008

101. tbl. 12. árg.

Á forsíðu Morgunblaðsins á mánudaginn mátti lesa fyrirsögnina „Átak gegn subbuskap bílstjóra í miðbæ? Lögregla, Bílastæðasjóður og Reykjavíkurborg funda um vandann í dag“. Líklega hafa flestir talið að fréttin undir fyrirsögninni væri um væntanlegt átak gegn því að bílstjórar tæmi úr öskubökkum og hendi pylsubréfum út um bílgluggann, þótt sá vandi sé sennilega ekki stór í sniðum miðað við sóðaskapinn sem gangandi vegfarendur láta eftir sér í miðbænum. Nei, reyndar var fréttin um að bílum hefði fjölgað í miðbænum og „subbuskapur“ af bílum sem væri ólöglega lagt hefði aukist.

Þá myndi kannski einhver ætla að yfirvöldin sem ráðgerðu að funda um málið ætluðu að finna leið til að anna eftirspurn eftir bílastæðum, svona eins og eigendur Holtagarða gerðu nýlega. En líklega hafa yfirvöldin lært það af nýlegri byggingu bílastæðahúss þar sem Stjörnubíó stóð áður að þau eru kannski ekki best til þess fallin að meta hvar eftirspurnin er helst til staðar. Að minnsta kosti kemur það fram í fréttinni í Morgunblaðinu að nýting bílastæðahússins sé lök.

En þá segir Morgunblaðið frá því að Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi hafi sagt á síðasta borgarstjórnarfundi að borgin hafi „sofið á verðinum“ því ekki hafi verið gert ráð fyrir að fækka stæðum á yfirborðinu þegar 1.600 til 1.800 stæði bætist við undir nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsinu.

Hvernig væri að bíða og sjá hvort „subbuskapurinn“ hverfi þegar svo mörg stæði bætast við í miðbænum áður en menn fara á taugum yfir því að hafa ekki fækkað stæðum á móti?