Föstudagur 11. apríl 2008

102. tbl. 12. árg.

Þ að er ekki alltaf auðvelt fyrir vísindamenn að afla fjár til rannsókna. Menn sem hafa sérhæft sig í afdrifum einstakra dýra- eða plöntutegunda sem ekki eru nýttar að gagni af manninum eiga til að mynda óhægt um vik. En nú virðist fundin lausn á þessum vanda. Vísindamaður sem aldrei hefur fengið styrk út á rannsóknir sínar á ástum og örlögum pokarottunnar getur nú sótt í ört vaxandi sjóði sem veita fé til rannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga. Þess mun skammt að bíða að fjárframlög til rannsókna á loftslagsmálum fari framúr því sem menn verja til að finna lækningu við krabbameinum.

Það eina sem vísindamaðurinn þarf að gera er að skipta um nafn á rannsóknarverkefninu. Út með einfalda titla eins „Tímgun pokarottunnar“ og inn með „Tímgun pokarottunnar í hnattrænni hlýnun“ eða „Tímgun pokarottunnar með hliðsjón hækkandi sjávarmáli í hlýnandi loftslagi af mannavöldum“.

Í Morgunblaðinu um síðustu helgi var auglýsing – um ráðstefnu vegna alþjóðaheilbrigðisdagsins 7. apríl. – sem ef til vill er angi af þessari þróun. Yfirskrift ráðstefnunnar var að sjálfsögðu „Heilsuvernd á tímum loftslagsbreytinga“. Í kynningartexta um ráðstefnuna sagði svo:

Á þessari öld er því spáð að meðalhiti á jörðinni geti hækkað um 1-3,5°C vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Þessi hitabreyting er mun meiri en náttúrulegar breytingar sem orðið hafa á loftslagi síðustu þúsund árin. Þessar breytingar og ýmislegt annað í umhverfinu munu áreiðanlega hafa áhrif á heilsufar fólks víða um heim. Spádómar varðandi Ísland gera ráð fyrir að áhrifin á heilsufar þjóðarinnar verði með minna móti. Ýmislegt bendir þó til þess að heilbrigðiskerfið verði að vera tilbúið að mæta aukningu ákveðinna heilsufarsvandamála á komandi áratugum, svo sem frjókornaofnæmi og öðrum öndunarfærasjúkdómum.

Það er talin lítil ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þessu hvað Ísland varðar en engu að síður er blásið til ráðstefnu um málið. Það sem menn sjá helst sem mögulegt vandamál er að frjókornarofnæmi gæti aukist með aukinni sprettu, ekki síst auknum trjágróðri.

Ríkið leggur á annað þúsund milljónir króna árlega í skógrækt og landgræðslu.