Nú eftir ófriðinn tók ég þátt í norrænum undirbúningsfundi um afstöðu þessara landa til fyrirkomulags Sameinuðu þjóðanna, og þótti mér þá gaman að heyra að fundarmönnum kom saman um að fara sér hægt gagnvart þeirri hugmynd að Sameinuðu þjóðirnar færu að koma sér upp nýjum alþjóðastofnunum til þess að vinna að þeim málefnum, þar sem þegar væri komin á hagnýt og vafningalaus alþjóðasamvinna þeirra aðilja sem bezt þekktu til. |
– Jón Krabbe, Frá Hafnarstjórn til lýðveldis, bls. 84, Reykjavík 1959. |
Þ að er hætt við því að ef hinn ágæti erindreki Íslendinga, Jón Krabbe, ætti þess að nýju kost að ganga í þjónustu landsins á erlendri grundu, þá færi hann á mis við þá skemmtun að heyra nokkurs staðar fundarmenn koma sér saman um að fara hægt í útþenslu alþjóðlegra stofnana. Nú yrði hann gerður út af örkinni við Rauðarárstíg til að róa öllum árum að eflingu allra þeirra alþjóðlegu stofnana sem hugmyndaflugið frekast leyfði, og helst að lofa sem allra mestri þátttöku og auðvitað fjáraustri hins fámenna íslenska lýðveldis til þeirra allra. „Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi“ er ein af mörgum leiðum kenningum nútímans.
Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála fjallar Ragnhildur Kolka um þá alþjóðastofnun sem mest fer fyrir og mestu fé eyðir. Miklar vonir voru bundnar við Sameinuðu þjóðirnar þegar til þeirra var stofnað, og enn munu margir taka tilveru þeirra sem sjálfsagðan hlut sem ekki verði deilt um. Þó er það svo, eins og rætt er í Þjóðmálum, að saga Sameinuðu þjóðanna hefur öðrum þræði einkennst af stórfelldum fjáraustri, úrræðaleysi og spillingu. Eins og rakið er í grein Ragnhildar Kolku er fjárausturinn til samtakanna gegndarlaus, eyðslan ekki síður en bókhaldið er leyndarmál sem aðildarríkin fá lítið að vita um. Árangurinn af starfi Sameinuðu þjóðanna er víðast hvar grátlega lítill; hvað eftir annað standa svokallaðir friðargæsluliðar þeirra aðgerðalausir þegar fólk, sem að nafninu til er undir vernd þeirra, er hreinlega þurrkað út. Á allsherjarþinginu og öryggisráðinu standa fulltrúar ólíkra ríkja og tala sig hása, annað hvort um ekkert eða þá án nokkurrar þeirrar niðurstöðu sem máli getur skipt.
Því var það að heimurinn fékk að horfa á þessa „verndara“ standa aðgerðalausa hjá á meðan 8000 karlmenn og drengir voru leiddir til aftöku í Srebrenica í Bosníu 1995. Í Rwanda tóku verndararnir einfaldlega til fótanna. Og ekki má gleyma „hlutlausu“ eftirlitssveitunum í Líbanon, sem sátu að tedrykkju með Hizbollah meðan eldflaugar voru bornar inn á athafnasvæði þeirra. Átökin í Líbanon hafa leitt í ljós að „eftirlitssveitirnar“ tóku sér stöðu með Hizbollah. Þær uppskáru svo laun sín sem mannlegir skildir þessara góðviðrisvina sinna. Fjölgun friðargæslusveita hefur á hinn bóginn ekki skilað okkur friðvænlegri heimi, svo orð sé á gerandi. |
Nú þarf enginn að efast um að nokkuð gott komi frá Sameinuðu þjóðunum. Milljarðar og aftur milljarðar streyma í fjárhirslur þeirra á ári hverju og auðvitað er hægt að gera eitt og annað við slíkt fé. Bandaríkin ein, sem þó eru sífellt krafin um meira, greiddu á árinu 2005 meira en 5,3 milljarða dala til Sameinuðu þjóðanna, en fá lítið að vita um það hvernig þetta fé er notað. Íslenska ríkið greiðir af skiljanlegum ástæðum heldur minna til þessara samtaka, en því fé er illa varið. Aðildarríkin ættu að gera skýra kröfu um endurskoðun á starfsemi samtakanna, skiljanlegt bókhald, hóf á útgjöldum og minna mas. Að öðrum kosti, og jafnvel hvort heldur er, ættu þau að fara að huga alvarlega að útgöngu úr þessum félagsskap.
Tímaritið Þjóðmál fæst í bóksölu Andríkis, bæði í áskrift og hvert hefti í lausasölu.