Fimmtudagur 11. maí 2006

131. tbl. 10. árg.

Langt er síðan áhugaleysi fólks á „flugvallarmálinu“ hefur sést eins vel og nú. Meira að segja sú staðreynd að helsta kosningamál Framsóknarflokksins varð að engu í höndunum á honum, og það af ástæðu sem mætti flokka undir byrjendamistök, verður ekki til þess að nokkur nýr maður æsi sig. Til að gæta sanngirni verður þó að vísu að taka fram, að almennt áhugaleysi á Framsóknarflokknum kunni einnig að koma þar við sögu, en það breytir ekki því að „flugvallarmálið“ er fjarri því að vera „mál“.

En Lönguskerjavitleysan er bráðfyndin og fróðleg. Framsóknarflokkurinn, sem raunar mun á flokksþingum vera þeirrar skoðunar að flugvöllurinn eigi að vera á sínum stað í Vatnsmýri, sagðist skyndilega vera talsmaður “„þjóðarsáttar“ um að færa völlinn út á sjó, á Löngusker. Svo vel var málið athugað hjá flokknum, og svo mörg önnur atriði en fjölmiðlamínútur helsta frambjóðandans skiptu máli, að það var ekki einu sinni athugað hvort skerin tilheyrðu Reykjavík, hvort borgarfulltrúar í Reykjavík réðu nokkru um ráðstöfun þeirra. Sama má segja um arkitekta og skipulagsfræðinga sem hafa talað eins og þeir hafi kynnt sér öll mál í hörgul, þeir höfðu ekki einu sinni athugað þetta. Og nú, þegar bent hefur verið á að skerin eru ekki undir yfirráðum borgarfulltrúa í Reykjavík heldur tilheyra langlíklegast Seltjarnarnesi, og bæði bæjarstjóri Seltjarnarness og oddviti minnihlutans í bænum segjast hvorugt taka flugvallarhugmyndina í mál, þá yppta menn bara öxlum. Nú já.

En í Blaðinu  var í fyrradag skemmtilegt forsíðuviðtal við Trausta Valsson skipulagsfræðing, sem blaðið segir fyrstan hafa sett fram Lönguskerjaflugvallarhugmyndina. Eftir honum er haft, að það sé „smáatriði hverjum skerin tilheyri“. Nú skipta eignarráð og skipulagsforræði ekki máli, þykir Trausta: „Að hengja sig í svona atriði finnst mér ekki rismikill málflutningur. Þessir menn ættu að reyna að hefja sig upp úr þessu hallærislega skæklatogi og reyna að hugsa um hagsmuni heildarinnar hér á höfuðborgarsvæðinu og hagsmuni allrar þjóðarinnar.“

Það er einmitt. Núna skiptir það ekki máli hvaða sveitarfélag á forræði á skipulagsmálum á svæðinu. Núna eru það „hagsmunir heildarinnar“ sem ráða. En hvernig er það þegar landsbyggðarmenn vilja fá að hafa eitthvað að segja um það hvort og þá hvar flugvöllur sé í höfuðborginni? Er þeim þá ekki alltaf svarað að þeir ráði ekki skipulagsmálum í öðrum sveitarfélögum? Hvenær koma „hagsmunir heildarinnar“, eða „hagsmunir allrar þjóðarinnar“ til álita þá?

Í þessu samhengi er ástæða til að benda áhugamönnum um skipulagsmál á erindi sem Mark Pennington mun halda á fundi hjá RSE í næstu viku þar sem hann gerir grein fyrir ókostum þess að láta hið opinbera sjá um skipulagsmál og hvernig færa má ákvarðanir um slík mál frá stjórnmálamönnum og til fólksins. Pennington hefur meðal annars ritað bókina Liberating the Land; The Case for Private Land-use Planning þar sem hann færir rök fyrir því að taka skipulagsmál úr höndum stjórnmálamanna og færa þau út á markaðinn.

Stjórnmálamenn sumir keppast nú við að láta eins og þeir vilji að flugvöllurinn fari og hafi alltaf viljað. Oft er það hreint fals hjá þeim og byggt á röngu stöðumati. Og ekki gera fjölmiðlamenn mikið til að benda á að ekki sé endilega mikil einlægni á bak við þá afstöðu. Í hinni nýju bók sinni, Fjölmiðlum 2005, segir Ólafur Teitur Guðnason meðal annars:

Annað nýlegt dæmi. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði í Fréttablaðinu á dögunum að hún hefði alltaf verið þeirrar skoðunar að flugvöllurinn ætti að fara úr Vatnsmýri. Hvers vegna bendir enginn fjölmiðill á að þetta er rangt. Í viðtali við Stöð 2 í byrjun febrúar á þessu ári sagði Steinunn Valdís: “Ég legg á það mjög mikla áherslu að við reynum að ná einhverri þannig sátt að það geti verið einhvers konar flugstarfsemi [í Vatnsmýrinni], hugsanlega í minnkaðri mynd.” Er það ekki frétt að borgarstjórinn segi ósatt um afstöðu sína til flugvallar í Vatnsmýri?

Þetta er alveg dæmigert fyrir vinnubrögð sumra stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna. Það er bara eitthvað sagt og flestir láta það gott heita. Og þetta litla atriði er líka dæmigert fyrir hina ágætu bók Ólafs Teits Guðnasonar. Þó að hún fjalli um fjölmiðla og vinnubrögð þeirra, þá eru ótal önnur atriði sem þessi, sem rifjast upp á nær hverri síðu.