Það er með nokkrum ólíkindum að forsprakkar R-listaflokkanna skuli telja að það verði sér til framdráttar að draga Reykjavíkurflugvöll inn í kosningabaráttuna nú eftir allt klúðrið og ruglið sem verið hefur í kringum flugvöllinn frá valdatöku þeirra fyrir tólf árum. En hvað er svo sem ekki reynandi til að tala um annað en skattahækkanir eða fjárhagsstöðu borgarinnar? Oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, Björn Ingi Hrafnsson, hefur gerst svo djarfur að boða þjóðarsátt um að flytja flugvöllinn út á Löngusker, en hefur reyndar fátt tekist með hugmyndinni annað en efna til ófriðar innan eigin flokks. Hann lætur það hins vegar ekki slá sig út af laginu og ekki heldur hitt, að þeir sem eigi tilkall til Lönguskerja, en þar hefur Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi farið fremstur í flokki, skuli setja sig alfarið upp á móti hugmyndinni. Björn Ingi segir í samtali við Morgunblaðið að það geti ekki komið bæjarstjóranum á óvart að hugmyndin sé rædd, og bætir svo við: „Fari svo að þessi möguleiki verði ofaná á endanum, sem ég tel líklegt, gefur augaleið að þá fari í hönd samráðsferli við Seltirninga og önnur sveitarfélög í kring.“ Fyrst ætlar oddviti framsóknarmanna sem sagt að ákveða leiðina sem farin verður og svo á að fara í samráðsferlið við þá sem málið varðar. Þetta verður hin besta þjóðarsátt, svona nokkurs konar pax romana.
En það er engin nýlunda að þeir sem vilja flugvöllinn burt hvetji til yfirgangs og gefi lítið fyrir vilja annarra, jafnvel vilja mikils meirihluta manna. Árið 2001 var haldin atkvæðagreiðsla um það hvort flugvöllurinn skyldi vera eða fara. Atkvæðagreiðslan fór fram eftir gífurlegar umræður um málið og mikla hvatningu fjölmiðla og stjórnmálamanna um að almenningur tæki þátt, enda voru reglurnar þannig að með því að taka ekki þátt gátu kjósendur fellt tillöguna um brottflutning vallarins. Tillagan þurfti annað hvort 50% stuðning atkvæðisbærra manna til að hafa gildi eða meirihluta ef að 75% atkvæðisbærra mættu á kjörstað.
Skemmst er frá því að segja að Reykvíkingar sögðu skoðun sína á brottflutningi flugvallarins með því að taka ekki þátt í kosningunni, en þátttaka varð innan við helmingur af því sem tilskilið var, eða rúm 37%. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafði þess vegna ekkert gildi. En meira að segja af þeim fáu sem létu hafa sig út í að greiða atkvæði þá var innan við helmingur fylgjandi því að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni. Aðeins um einu prósenti færri mættu – að óþörfu – á kjörstað sérstaklega til að segja að þeir vildu að völlurinn yrði þar sem hann er. Kosningin hafði sem sagt ekkert gildi og var afar langt frá því að staðfesta þá trú sumra stjórnmála- og fjölmiðlamanna að almenningur vildi endilega losna við flugvöllinn.
Afleiðingin varð líka sú að fyrir rúmu ári undirrituðu Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra samkomulag um að byggja samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni. Með því viðurkenndi borgarstjóri í raun að flugvöllurinn væri alls ekkert á förum. En síðan hefur óminnishegrinn greinilega gerst nærgöngull við borgarstjóra því að í samtali við Ríkisútvarpið í gær virtist hún ekkert kannast við að hafa unnið að því að festa flugvöllinn í sessi og sagðist þvert á móti ósammála samgönguráðherra um að hann yrði örugglega áfram í Vatnsmýrinni næstu árin.