Vefþjóðviljinn 123. tbl. 20. árg.
Hvers vegna ætli ýmis ríki kynni sig sem lágskattaríki? Eða ríki sem virðir bankaleynd meira en önnur ríki. Ætli það sé til þess að sýna samstöðu með þeim sem vilja minnka þá háu skatta sem þeir borga til ríkisins í heimalandi sínu eða vilja stunda viðskipti sín í friði fyrir forvitnum augum og eyrum. Eða ætli eigingjarnari hvatir búi að baki?
Skýringin er vafalaust sú að þessi ríki sjá þetta sem leið til þess að skapa sér tekjur. Fjöldi fyrirtækja, með erlent eignarhald, verður stofnaður í ríkinu, sem þar með fær af þeim tekjur sem ella hefðu ekki komið til ríkisins.
Þessi ríki eru einfaldlega að skapa sér sérstöðu, gera það aðlaðandi í augum annarra að stofna þar fyrirtæki.
Nú hafa þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram tillögu á þingi um að Ísland beiti sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gegn „lágskattaríkjum“.
En getur ekki verið að ríki beiti fleiri aðferðum en þessum til þess að lokka til sín viðskipti sem ella færu ekki fram í landinu? Og getur ekki verið að þeim ríkjum sé alveg sama þótt önnur ríki missi spón úr aski sínum?
Ríki geta gert fleira en að veita afslátt af tekjusköttum fyrirtækja. Eitt ríki beitir til dæmis þeirri aðferð að bjóða erlendum kvikmyndagerðarfyrirtækjum endurgreiðslu af framleiðslukostnaði ef þeir framleiða myndir sínar í landinu.
Ætli þingflokkur Samfylkingarinnar vilji ekki líka að Ísland beiti sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gegn lágkostnaðarframleiðleiðsluríkjum? Líklega myndu mörg lönd fagna því ef alþjóðleg herör yrði skorin upp gegn slíku.
Svo eru til lönd sem bjóða fyrirtækjum „ívilnunarsamninga“ ef þau hefji þar rekstur. Steingrímur J. Sigfússon og Ragnheiður Elín Árnadóttir muna vafalaust eftir einu slíku landi. Líklega myndu mörg lönd vilja að ívilnunarlöndin yrðu beitt viðskiptaþvingunum.
Enginn sem er í rekstri verður ánægður ef einhver annar býður upp á lægra verð en hann.