Helgarsprokið 1. maí 2016

Vefþjóðviljinn 122. tbl. 30. árg.

Það er mjög virðingarvert þegar menn gera kröfur til sjálfs sín áður en þeir gera kröfur til annarra.Í Morgunblaðinu var á laugardaginn rætt við einn blaðbera þess, Jón Árnason sem ber út í Seláshverfi. Af viðtalinu að dæma er Jón einn þeirra fjölmörgu sem vinnur hörðum höndum til að sjá fyrir sér og sínum.Í viðtalinu kemur fram að Jón hafi byrjað blaðburðinn árið 2009 þegar hart hafi verið í ári hjá mörgum í kjölfar bankahrunsins. Jón segir: „Ég gat ekki hugsað til enda að íbúðin færi á uppboð. Varð mér því úti um alla þá aukavinnu sem mögulega bauðst og ég gat tekið; vann á pítsastað, greip í verkefni fyrir íþróttafélagið Fylki og tók svo blaðburðinn. Vinnustundir hvers mánaðar gátu verið allt að 300, sem er ansi ríflegt. Yfir árið voru unnar stundir um 3.600. Auðvitað skilaði hvert þessara starfa ekki miklum tekjum, en það munaði um hverjar þúsund krónurnar og íbúðin fór ekki undir hamarinn.“

Aðalstarf Jóns er að hann er verslunarmaður hjá Vélasölunni við Dugguvog í Reykjavík. Það er því ekki að undra að vinnudagurinn sé löngum langur hjá honum þegar aukastörfin bætast við.Eftir síðustu þingkosningar í Bretlandi, þar sem Íhaldsflokkurinn vann óvæntan sigur, lýsti David Cameron flokki sínum þannig að hann vildi beita í þágu hins venjulega heiðvirða borgara og búi honum aðstæður til að komast áfram og bæta hag og aðstæður sínar og sinna.

Eða með orðum Camerons sjálfs:

I call it being the real party for working people – giving everyone in our country the chance to get on, with the dignity of a job, the pride of a paycheque, a home of their own and the security and peace of mind that comes from being able to support a family.
And just as important – for those that can’t work, the support they need at every stage of their lives.

Nú veit Vefþjóðviljinn ekkert um Jón Árnason, verslunarmann og blaðbera, hagi hans eða skoðanir, umfram það sem dæma má af viðtalinu. En hann virðist að minnsta kosti vera maður sem skilur vel hvað forsætisráðherra Bretlands á við þegar hann talar um „the dignity of a job, the pride of a paycheque, a home of their own and the security and peace of mind that comes from being able to support a family.“

Þetta eru atriði sem ástæða er til að halda á lofti, um leið og alls ekki má gleyma því fólki sem er ekki svo heppið að geta unnið fyrir sér og sínum. Fjölmargir eiga ekki möguleika því, til dæmis vegna sjúkleika, fötlunar, elli eða af öðrum ástæðum sem enginn á að þurfa að skammast sín fyrir. Flestir sæmilegir menn vilja að það fólk eins og annað geti lifað með eðlilegri reisn og borið höfuðið hátt eins og aðrir. Með því er ekki sagt að það eigi allt að eiga kröfur á ríkið eða sveitarfélög enda geta margir úr þessum hópum vel séð um sig sjálfir án þess, ekki síst eldra fólk sem hefur skapað sér lífeyrisréttindi og byggt upp eignir á starfsævinni.

Og það er hressandi að í viðtalinu við Jón, þar sem hann lýsir því hvernig hann með dugnaði náði að standa í skilum og bjarga íbúðinni sinni, er ekki eitt einasta orð um að einhverjir aðrir hafi brugðist. Að ekki hafi verið veitt næg aðstoð, nægar afskriftir, meira gert fyrir Jón. Sé hann þeirrar skoðunar er hann ekki að flíka því í viðtalinu. Hann virðist einfaldlega standa fyrir sínu með dugnaði.
En þó Jón kvarti ekki yfir neinu í viðtalinu þá ætlar Vefþjóðviljinn að gera það. Því stjórnvöld hafa því miður ekki gert nóg fyrir Jón og allar þær þúsundir manna sem eru í sömu sporum, vinna langan vinnudag og leggja hart að sér til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Stjórnvöld eiga að létta þessu fólki lífið með umtalsverðum skattalækkunum. Það á að lækka tekjuskatt og útsvar svo vinnandi fólk fái meira í vasann en minna fari til stjórnmálamannanna. Allt þetta fólk sem er að reyna að bjarga sér og sínum, gerir kröfur til sín en heimtar ekki opinberan stuðning, á að fá sem allra mest af eigin launum sjálft. Skattalækkanir eru það sem gagnast því fólki best. Þar eiga hægrisinnaðir stjórnmálamenn að láta verkin tala en láta ekki embættismenn og vinstrimenn hræða sig.

Það skiptir hinn vinnandi mann máli að skattar á launatekjur hans lækki. Það skiptir hann ekki máli að settir séu kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja. Það skiptir hann máli að skattur á fasteignina hans verði lækkaður. Það hjálpar honum ekki að settar séu 24 milljónir af skattfé í að reisa mosku í Feneyjum. Eða þúsundir milljóna inn í Ríkisútvarpið.

Það á að lækka skatta á vinnandi fólk, auka frelsi þess til athafna, greiða niður ríkisskuldir og minnka opinbera sóun. Atvinnulífið á að fá að dafna og kaupmáttur að aukast svo sem allra flestir hafi raunhæfa möguleika á að eignast eigið þak yfir höfuðið, ef þeir vilja.