Föstudagur 16. september 2005

259. tbl. 9. árg.

Það má færa fyrir því sterk og dapurleg rök að í stjórnmálastefnunni kommúnisma, og framkvæmd stefnunnar víða um heim, hafi falist mestu manngerðu hörmungar sem nokkru sinni hafi dunið á saklausu fólki. Það er með algerum ólíkindum hvílíka ógn og hörmungar þeir leiddu yfir þjóðir sínar, þeir menn sem á síðustu öld stýrðu þeim í nafni kommúnismans um lengri eða skemmri tíma. Og ekki síður er ótrúlegt til þess að hugsa að í öðrum ríkjum voru ætíð menn sem báru blak af kommúnistastjórnunum, annað hvort berum orðum eða með því að gefa í skyn að önnur stjórnvöld væru síst betri, eða með því að sá tortryggni í garð alls þess sem Vesturlönd reyndu að gera til þess að verjast útbreiðslu kommúnismans. Saga kommúnismans er með miklum ólíkindum, vægast sagt, og má hvorki falla í gleymsku né verða bráð þess tómlætis sem sér lítinn sem engan mun á réttu og röngu. Þeir sem vilja teljast sæmilega upplýstir verða því miður að kynna sér hörmungarsögu kommúnismans, uppgang hans, ógnir hans og loks hrun hans.

Í þessum mánuði kom út hér á landi bók þar sem saga kommúnismans er rakin á afar aðgengilegan hátt. Bókin, Kommúnisminn, sögulegt ágrip, kom fyrst út í Bretlandi árið 2001 og er eftir einn þekktasta sérfræðing heims í nútímasögu Rússlands, Richard Pipes að nafni, en hann var prófessor í sagnfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og hefur skrifað fjölda bóka um rússnesk málefni. Í bókinni gerir hann stuttlega grein fyrir fræðilegum grundvelli kommúnismans en rekur svo söguna, bæði í Rússlandi og öðrum löndum þar sem þjóðum var byrlaður kommúnismi. Þó flestir Vesturlandabúar viðurkenni nú, í orði kveðnu að minnsta kosti, að kommúnisminn hafi ekki reynst eins vel og til stóð, þá gerir fólk sé misgóða grein fyrir því hver helstefna þar er á ferð, og hvílík saga hennar er. Í bók Pipes kynnist lesandinn ekki aðeins manni eins og Jósef Stalín, sem flestir hafa núorðið sæmilega hugmynd um að hafi verið í verra lagi, heldur ótal mörgum öðrum, sem voru engir englar heldur. Sennilega átta ekki allir sig á þeirri grimmd og mannfyrirlitningu sem til dæmis einkenndi forvera hans, Lenín, svo dæmi sé tekið.

En það eru ekki aðeins löngu látnir og fjarlægir leiðtogar eins og Lenín og Stalín sem eru kynntir til sögunnar. Saga kommúnismans er í bókinni rakin allt fram á þennan dag. Pol Pot í Kambódíu, Castro á Kúbu, Mao í Kína, Allende í Chile, Mengistu í Eþíópíu eru leiðtogar sem fá sinn sess í bókinni og fleiri mætti nefna. Saga þeirra allra mætti verða fólki víti til varnaðar, þó það sé misjafnt hversu illu þeir komu til leiðar. Þeir Pol Pot og Allende eru vitanlega ekki sambærilegir að því leyti, svo dæmi sé tekið. Kommúnisminn er afar aðgengileg og lipurlega skrifuð bók og fagnaðarefni að slíkt rit sé nú til á íslensku um þetta málefni.Það er óhætt að mæla með þessari stórfróðlegu bók við alla áhugamenn um stjórnmál og sögu, og raunar við alla þá sem vilja vera upplýstir menn. Bókin er 180 blaðsíður að stærð, innbundin en án hlífðarkápu. Bóksala Andríkis býður Kommúnismann  til sölu á kr. 1950 og er sendingargjald innifalið eins og á öðrum bókum sem þar fást.