Allt frá því í ársbyrjun 1998 þegar Ólafur Ragnar Grímsson kaus að nota áramótaávarp forseta Íslands til að boða að jökulhella kynni að leggjast yfir landið ef Íslendingar gengju ekki umhverfisöfgasjónarmiðum á hönd, hafa ýmsir sennilega trúað því að á þessu væri raunveruleg yfirvofandi hætta. Ólafur Ragnar sagðist styðjast við fremstu vísindamenn heims og sagði orðrétt í ávarpi sínu:
Ef svo heldur fram sem horfir gæti hitaaukning víða um heim gert gróðursvæði að eyðimörk en annars staðar yrði kólnun í ætt við ísaldartíma. Breytingar á saltstigi sjávar myndu stöðva aflvélina sem knúið hefur hringrás hafstraumanna og ylurinn sem við höfum hlotið úr suðurhöfum hætta að berast hingað. Lega Íslands og lykilhlutverk Golfstraumsins á okkar slóðum eru á þann veg að áhrif loftslagsbreytinganna myndu koma hvað harðast niður á okkur Íslendingum og gera landið nánast óbyggilegt fyrir barnabörn okkar og afkomendur þeirra. Jökulhella mun þá leggjast yfir landið allt, fiskistofnarnir sem haldið hafa lífi í þjóðinni um aldir hverfa úr hafinu umhverfis, hluti núverandi byggða sökkva við hækkun sjávarborðs. |
Það munar ekkert um það. Jökulhella mun þá leggjast yfir landið allt, sagði forseti landsins eins og ekkert væri eðlilegra. Á þeim tíma sem orðin féllu var ekkert sérstakt tilefni til að bera þessa heimsendaspá á borð fyrir almenning því að þessi þróun hefur aldrei verið talin líkleg þó að hún hafi verið talin fræðilegur möguleiki. En þá verður líka að geta þess að flest er í raun talinn fræðilegur möguleiki í þessum fræðum vegna þess að óvissan er svo mikil og þekkingin svo tiltölulega lítil að erfitt er að hafna nokkurri kenningu sem slengt er fram, hversu fjarstæðukennd sem hún kann að virðast.
Á þeim árum sem liðin eru frá heimsendaspá Ólafs Ragnars hefur verið haldið áfram að rannsaka þetta mál. Vefþjóðviljinn hefur ekki séð „fremstu vísindamenn heims“ taka undir spá Ólafs Ragnars, þvert á móti hefur verið gefinn út fjöldi rannsókna sem sýnir að þessi spá er vægast sagt fjarstæðukennd. Nýjustu rannsóknarinnar af þessu tagi er getið á forsíðu Morgunblaðsins í gær, líklega vegna þess að einn af höfundunum er Íslendingur, en hún birtist sama dag í tímaritinu Science. Í greininni, sem heitir því lipra nafni Influence of the Atlantic Subpolar Gyre on the Thermohaline Circulation, er niðurstaðan sú að aukinn hiti og salt berist norður eftir með Golfstraumnum og það vegi upp á móti þeim áhrifum sem voru undirstaða þeirrar kenningar að Golfstraumurinn kynni að gefa eftir vegna aukins magns ferskvatns í norðurhöfum.
Kenningin um að Golfstraumurinn sé að hverfa og spá æsingamanna um að jökulhella muni þá leggjast yfir Ísland er aðeins eitt dæmi af mörgum um að hinn almenni maður ætti að varast heimsendaspádóma. Ef einhver setur fram heimsendakenningu er jafnan ráðlegt að bíða í nokkur ár og sjá hvernig henni mun vegna í raunveruleikanum og vísindaheiminum. Mannskepnan hefur líklega frá upphafi dundað sér við að varpa fram slíkum kenningum en hingað til hafa þær allar reynst rangar. Þessi staðreynd ætti vitaskuld að fæla menn sem gegna ábyrgðarstöðum frá því að gerast boðberar slíkra kenninga. Þó er hætt við að þeir muni ekki láta segjast en halda þess í stað áfram hræðsluáróðrinum.