Við erum búin að segja A og þá eigum við að segja B og C og fara alla leið. |
– Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í umræðum um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í Kastljósi, föstudaginn 16.september 2005. |
Ef það er eitthvað samfélag sem hefur færi á líflegum vexti háskóla og rannsókna í samspili við framsækið atvinnulíf og stjórnvöld, þá er það samfélag eins og okkar þar sem þú færð viðtal hjá ráðherra eða ráðhúsinu í sömu viku og þú færð góða hugmynd. |
– Dagur B. Eggertsson í viðtali við Tímarit Morgunblaðsins, sunnudaginn 18.september 2005. |
Sem betur fer hafa völd stjórnmálamanna minnkað á undanförnum árum. Svo er hitt að þau hafa ekki minnkað nærri nóg. Tvær áminningar um það komu fram núna um helgina.
Fyrri áminningin var þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, tók af öll tvímæli um það í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins síðastliðið föstudagskvöld að það væri hennar skoðun að halda ætti að til streitu framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Tilefnið var að undanfarna daga hafa nokkrir stjórnarþingmenn opinberlega tekið undir efasemdir Davíðs Oddssonar um að skynsamlegt sé að halda framboðinu til streitu. Í Kastljóssþætti kvöldsins áður hafði svo Einar Oddur Kristjánsson ítrekað þá skoðun sína með afgerandi hætti að skynsamlegast væri að draga framboðið til baka. Þetta eru því nokkur tíðindi, stjórnarþingmaður er alfarið á móti framboðinu en ráðherra úr sama flokki eindregið með því. Það sem sætir þó meiri tíðindum en skoðanir þessa fólks eru röksemdirnar sem færðar eru fyrir þeim.
„Honum til fróðleiks skal það upplýst hér að svona var þetta einu sinni í þessu samfélagi, samfélagi sem byggði ekki á sköpunarkrafti heldur atkvæðakrafti og ekki á þekkingu heldur á því að þekkja einhvern. Í dag fara menn bara með góðar hugmyndir í bankann og fá viðtal samdægurs.“ |
Einar Oddur færði fram þrjár meginröksemdir fyrir skoðun sinni. Í fyrsta lagi að framboðið sé alltof dýrt fyrir okkur en það stefnir í að kosta frá sexhundruð til þúsund milljóna (og þá þýðir það auðvitað þúsund). Í öðru lagi að það sem við höfum fram að færa í ráðinu sé svo lítið að það sé í besta falli ekki neitt umfram það sem keppinautar okkar hafa og í versta falli værum við að spilla fyrir setu Tyrkja í ráðinu sem Einar telur að gætu hjálpað til við að brúa hinn vestræna og íslamska heim innan ráðsins. Í þriðja lagi að þá séu nær engar líkur á að við náum kjöri og þar með sé öll fyrirhöfnin og fjármagnið farin fyrir lítið.
Undir þetta getur Vefþjóðviljinn tekið.
Þorgerður færði líka fram röksemdir fyrir skoðun sinni. Í fyrsta lagi sagði hún að við ættum erindi í ráðið sem boðberar lýðræðis, mannréttinda og Norðurlanda. Í öðru lagi sagði hún að þegar maður sé búinn að segja A þá eigi maður að segja B og svo C og fara svo alla leið. Í þriðja lagi sagði hún að við ættum að sýna ábyrgð á alþjóðavettvangi samhliða ráðdeild í ríkisrekstri. Í fjórða lagi sagði hún að við ættum að láta af smálandatali því þó það gæti vel verið að við séum bara eitthvað um þrjúhundruð þúsund einstaklingar þá værum við stór þjóð á ákveðnum sviðum og ættum að vera stolt af því.
Undir þetta getur Vefþjóðviljinn ekki tekið.
Við fyrstu röksemdinni er því til að svara að einn keppinauta okkar er Austurríki, sem nú á dögum telst varla síðri boðberi lýðræðis og mannréttinda en Íslendingar og er eftir því sem best er vitað ekki óvinveitt Norðurlöndum.
Við annarri röksemdinni er því til að svara að hún er ekki röksemd. Ef ske kynni að þetta svar sé ekki nógu faglegt þá er faglega útlistun að finna hér.
Við þriðju röksemdinni er því til að svara að það er vandséð hvernig það samrýmist ráðdeild í ríkisrekstri og um leið ábyrgð á alþjóðavettvangi að nota eittþúsundmilljónir af fé skattborgaranna til þess eins að gera Austurríki erfiðara um vik við að fá sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Við fjórðu röksemdinni er því til að svara að það getur ekki bara vel verið að við séum eitthvað um þrjúhundruð þúsund einstaklingar, það er bara einfaldlega þannig. Íslendingar voru 292.587 um mitt ár 2004. Það er reyndar alveg rétt að Íslendingar eru stór þjóð á ákveðnum sviðum, til dæmis á ýmsum sviðum sem tengjast fiskveiðum og hvergi í heiminum tala jafn margir íslensku eins og hér á landi. Það er hinsvegar meira um vert að við séum nógu stór til að skynja okkar eigin smæð og nógu stór til að styðja aðra til góðra verka.
Seinni áminningin um mikilvægi þess að takmarka völd stjórnmálamanna birtist í formi viðtals við Dag B. Eggertsson í Tímariti Morgunblaðsins í dag. Þar segir lýsir Dagur áhyggjum sínum yfir því að gjá hafi myndast milli samfélags sem byggi á sköpunarkrafti og þekkingu og stjórnmála sem hafi villst af leið. Þessari gjá vill Dagur loka og er helst á honum að skilja að það sé létt verk í samfélagi eins og okkar þar sem maður fær viðtal hjá ráðherra eða ráðhúsinu í sömu viku og maður fær góða hugmynd.
Degi yfirsést það algerlega að þetta samfélag sem byggir á sköpunarkrafti og þekkingu varð einmitt til þegar þessi gjá var búin til milli atvinnulífs og stjórnmála. Dagur, sem skilur „æðaslátt nýrra tíma“ eins og það er orðað í viðtalinu, er þeirrar trúar að góðar hugmyndir séu best geymdar á biðstofum ráðhúss og ráðherra. Honum til fróðleiks skal það upplýst hér að svona var þetta einu sinni í þessu samfélagi, samfélagi sem byggði ekki á sköpunarkrafti heldur atkvæðakrafti og ekki á þekkingu heldur á því að þekkja einhvern. Í dag fara menn bara með góðar hugmyndir í bankann og fá viðtal samdægurs.
Eða á Dagur kannski við að menn fari fyrst í viðtal í ráðhúsi og fái svo góða hugmynd, seinna í sömu viku?