Áföstudaginn var nær ekkert annað í fréttum en aðsúgur starfsmanna á ríkisstofnun að nýráðnum deildarstjóra sínum. Þessi deildarstjórastaða hjá ríkinu hefði auðvitað ekki orðið slíkt fréttamál ef aðrir ríkisstarfsmenn en fréttamenn hefðu átt hlut að máli, hvað þá ef um gremju starfsmanna einkafyrirtækis hefði verið að ræða. Fréttamenn Ríkisútvarpsins misnotuðu aðstöðu sína gróflega til að halda málstað sínum á lofti og höfðu að lokum sitt fram. Útvarpsráð og útvarpsstjóri hljóta að velta hlutverki sínu fyrir sér nú þegar það liggur fyrir að starfsmenn Ríkisútvarpsins ráða því sem þeir vilja innan stofnunarinnar. Það er engin þörf fyrir útvarpsráð og útvarpsstjóra sem engu ráða.
Þótt ríkisreksturinn væri aðal fréttaefnið á föstudaginn fögnuðu menn engu að síður 150 ára afmæli verslunarfrelsis á Íslandi. Verslunarráð Íslands minntist tímamótanna meðal annars með því að benda á ýmsa mismunun sem enn er til staðar í skattakerfinu og hindrar eðlilega keppni milli fyrirtækja.
Eitt skýrasta dæmið um mismunun sem Verslunarráð bendir á í Skoðun sinni eru vörugjöld. Vörugjöld geta verið mjög mismunandi þótt vörurnar sem þau leggjast á hljóti að teljast sambærilegar.
Gamalt dæmi, en því miður ennþá raunverulegt, um ósanngirni í tollamálum er álagning vörugjalda á brauðristar. Brauðristar eru ennþá skattlagðar á mismunandi hátt eftir því einu hvort brauðið fer lóðrétt eða lárétt í þær. Á brauðristar er hvorki lagður tollur né vörugjald. Á hin svonefndu samlokugrill, sem eru ekkert annað en brauðrist sem ristar brauðið lárétt, er hins vegar lagður á 7,5% tollur og hvorki meira né minna en 20% vörugjald. Ofan á allt saman leggst svo 24,5% vsk. Svipaða sögu má segja um strauvélar og straujárn þar sem straujárnin hefðbundnu bera enga tolla eða vörugjöld en strauvélin (sem hentar vel til að strauja stærri stykki) fær á sig 7,5% toll og 20% vörugjald. |
Fleiri dæmi um mismunun af þessu tagi eru rakin í Skoðun Verslunarráðsins. Milliveggjaplötur bera mismunandi vörugjöld eftir því hvaða efni er í þeim. Gipsplötur bera 15% vörugjald en spónaplötur og krossviður ekkert. Skattlagning kakós virðist vera svo margbrotin að það væri athugandi fyrir Endurmenntunarstofnun að halda námskeið um kakóskatta.
Öll skattaleg mismunun með þessum hætti beinir neytendum auðvitað í aðrar áttir en þeir hefðu að öllu jöfnu farið. Fleiri milliveggir eru gerðir úr spónaplötum í stað eldtefjandi gipsveggja. Fleiri rista brauðið sitt upp á rönd án áleggs í stað þess að hita áleggið með í samlokugrilli. Mismunandi vörugjöld á bíla beina neytendum frá vel búnum og öruggum bílum í verr búna.
Þessi áminning Verslunarráðs lýsir því hvernig hægt er að skerða verslunarfrelsið með öðrum hætti en boðum og bönnum. Flóknar skattareglur sem mismuna fyrirtækjum og þar með neytendum skerða fengið athafnafrelsi. Það hlýtur að vera eitt mikilvægasta verkefni frjálslyndra manna á næstu árum að draga úr þessari mismunun og frelsisskerðingu.