S tefnir, tímarit Sambands ungra sjálfstæðismanna, er nýkomið út og kennir þar ýmissa áhugaverðra grasa. Fyrirferðamest í blaðinu er viðtal við dr. Hannes Hólmstein Gissurarson, þar sem farið er yfir æviferil hans, félags- og stjórnmálaþátttöku, fræðistörf og þá hugmyndafræði sem hann hefur verið talsmaður fyrir, frjálshyggjuna. Í viðtalinu er Hannes spurður að því hver þeirra verkefna sem bíði við stjórnun landsins séu mikilvægust og hann segir að tvö verkefni séu brýnust, og þau séu bæði hagnýt og vænleg til árangurs:
Í fyrsta lagi þarf að halda áfram að lækka skatta. Það er mjög mikilvægt. Með því skapast þrýstingur til þess að lækka ríkisútgjöld líka í leiðinni. Í öðru lagi er brýnt að koma eigendalausu fjármagni og eigendalausum auðlindum í hendurnar á eigendum til þess að skapa ábyrgðarkennd þannig að menn umgangist bæði auðlindirnar og fjármagnið sem eignir, láti þær vaxa og dafna og gæti þeirra. Með eigendalausu fjármagni á ég til dæmis við eignir sem eru bundnar í sparisjóðum, samvinnufélögum, kaupfélögum og jafnvel lífeyrissjóðum. Með eigendalausum auðlindum á ég bæði við hálendi og fiskistofnana, þó að megi segja að kvótakerfið sé vísir að því að koma fiskistofnunum í hendur á eigendum. Menn fara betur með það sem þeir eiga en það sem þeir eiga ekki. Það er til íslensk spakmæli, „sjaldan grær gras í almenningsgötu“. Það er mjög mikið til í því að ræktun og gæsla hlutanna tekst ekki af neinni alvöru fyrr en að þeir eru komnir í einkaeign. Það sem allir eiga, hirðir enginn um. Þannig að ef ég mætti ráða, og semja pólitíska stefnuskrá þá væri hún fólgin í tvennu, skattalækkunum og því að fá fjármagninu og auðlindunum hirði. |
H vernig er kynjaskiptingin í stjórnum tíu stærstu lífeyrissjóðanna og í stjórnunarstöðum hjá þeim? Hvernig er kynjaskiptingin í stjórnum fimmtíu stærstu hlutafélaganna á atvinnu- og fjármálamarkaði? Þessar tvær spurningar lagði þingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir fyrir fjármálaráðherra og óskaði skriflegs svars. Fyrirspurnirnar voru lagðar fram fyrir rúmum mánuði og fjármálaráðherra hefur vafalítið falið einhverjum af embættismönnum ráðuneytisins að fletta þessu upp. Þetta hefur tekið nokkurn tíma, en upplýsingaöflun þessi er að öðru leyti alls ekki af þeim toga að leita þurfi til ráðuneyta um svörin. Jóhönnu var í lófa lagið að fletta þessu sjálf upp eða hringja sjálf í þessa sjóði og fyrirtæki til að afla upplýsinganna, en það er auðvitað vænlegra þegar menn vilja vekja á sér athygli að leita upplýsinganna með fyrirspurn til ráðherra.
Sífelldar delluspurningar stjórnarandstöðunnar til ráðherra kosta mikið fé og þeir sem borga brúsann eru vitaskuld skattgreiðendur. Þeir greiða fyrir sýndarmennsku Jóhönnu og hennar líka. Það hlýtur að mega ætlast til þess af þingmönnum, séu þeir á annað borð læsir og kunni á símtæki, annars er sjálfsagt að gera undanþágu, að þeir afli einfaldra upplýsinga sjálfir en láti ekki skattgreiðendur bera kostnaðinn. Fyrirspurnir á Alþingi eru komnar út í slíka vitleysu að það kæmi ekki á óvart ef einhver þingmaðurinn fengi samgönguráðherra til að láta embættismenn fletta upp símanúmerum á fréttastofum landsins svo vekja mætti athygli á mikilvægri fyrirspurn.