Niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um fylgi flokkana, sem Morgunblaðið birti í gær, hafa sjálfsagt komið ýmsum í opna skjöldu. Samfylkingin, sem hefur verið með mikið fylgi í könnunum síðustu misserin, fengi 25% samkvæmt þessari könnun og Sjálfstæðisflokkurinn hefur rétt verulega út kútnum og fengi 39%. Sjálfstæðisflokkurinn er 6% yfir kjörfylgi en Samfylkingin 6% undir kjörfylgi. Þróunar í þessa átt gætti einnig í skoðanakönnun Gallups sem gerð var allan febrúarmánuð.
Án þess að Vefþjóðviljinn vilji gera of mikið með niðurstöður skoðanakannana er eitt atriði umhugsunar vert. Það hefur verið látið þannig með framboð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til formanns í Samfylkingunni að baráttan við Össur Skarphéðinsson sé nánast formsatriði. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er að taka við flokknum. Er það ástæðan fyrir minnkandi fylgi? Þetta væri ef til vill ekki burðug kenning ef svipað hefði ekki átt sér stað í aðdragandi þingkosninganna árið 2003. Þá var Samfylkingin á mikilli siglingu undir forystu Össurar. Allt leit út fyrir að Samfylkingunni tækist að fella ríkisstjórnina þar til Ingibjörg Sólrún Gísladóttir valdi sjálfa sig á framboðslista flokksins í Reykjavík og gerði sig að forsætisráðherraefni flokksins.
Annað þessu tengt. Samfylkingin hefur amast mjög við einkaskólum. Það á ekki aðeins við í orðum heldur einnig verkum eins og atlaga flokksins í Hafnarfirði að Áslandsskóla og stefna Stefáns Jóns Hafsteins, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, gagnvart einkaskólum í Reykjavík ber með sér. Þessi andstaða við einkaskólana virðist þó ekki koma í veg fyrir að Samfylkingin nýti sér kosti þeirra. Þannig nýttist einkaskóli á Bifröst í Borgarfirði til að rýma fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á Alþingi. Meira um það síðar.