J ólasveinarnir hafa átt annasama daga að undanförnu, líkt og áður á þessum árstíma, en nú er farið að hægjast um hjá þeim. Þeir eru búnir að þeytast um og gefa öllum góðu börnunum fallega pakka og svo hafa þeir stundum lagt lykkju á leið sína og gefið hinum börnunum jarðepli. Þegar þeir eru ekki að stinga litlum glaðningi í skó eða sokka barnanna þá eru þeir sem kunnugt er önnum kafnir við eigur foreldra þeirra. Þeir krækja sér í bjúgu og annað lauslegt en eru síður aufúsugestir í því hlutverki. Jólasveinarnir, að minnsta kosti hér á landi, lifa nefnilega tvöföldu lífi. Þeir eru svona eins og dr. Jekyll og hr. Hyde. Þeir eru einum eitt, en öðrum allt annað. Jólasveinarnir eru góðir við börnin, en heldur síðri við þá sem eldri eru. Þetta er að minnsta kosti það sem lesa má út úr hinum ólíku og jafnvel misvísandi sögum af þeim, sem að sjálfsögðu verða allar teknar trúanlegar. Engin ástæða til annars.
Annar hópur manna og enn fjölmennari leikur stundum svipað hlutverk og þess vegna vill bregða við að þessum hópi sé einmitt líkt við jólasveina. Þetta eru stjórnmálamenn, sem oft og tíðum eru æði örlátir og gefa á báðar hendur ef því er að skipta. Frá einu slíku dæmi – og ekki af minni sortinni – var sagt í lítilli frétt í Morgunblaðinu í gær. Þar kom fram að kostnaður vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhúss, að meðtöldum undirbúningskostnaði, yrði um átta milljarðar króna. Já, 8 milljarðar króna. Þegar rekstrarkostnaður til næstu 35 ára væri tekinn með, en hugmyndir um byggingu hússins gera ráð fyrir einkaframkvæmd til 35 ára, sé núvirði verkefnisins með undirbúningskostnaði nær 12 milljarðar króna. Reykjavíkurborg eigi að greiða tæpan helming en ríkið rúman helming. Árlegt framlag hins opinbera í þessi 35 ár er áætlað tæplega 600 milljónir króna og skal það hækka með vísitölu neysluverðs.
Þetta er auðvitað afar myndarleg jólagjöf sem hvaða jólasveinn sem er gæti verið stoltur af. Vandinn er hins vegar sá að þeir jólasveinar sem ætla að gefa þessa jólagjöf þurfa að taka hana frá öðrum til að geta gefið hana. Þeir þurfa að taka á núvirði tæpa 12 milljarða króna af öllum almenningi, til að geta gefið áhugamönnum um byggingu tónlistarhúss þessa jólagjöf. Ef við deilum 12 milljörðum króna niður á alla Íslendinga má sjá að hver Íslendingur verður að meðaltali að greiða um 40.000 krónur til að þetta hús geti orðið að veruleika. Hver fjögurra manna fjölskylda greiðir að meðalatali 160.000 krónur í húsið. Hvernig væri nú, áður en lengra er haldið og áður en um seinan er að hætta við bygginguna, að hinn almenni maður yrði spurður álits á henni með hliðsjón af þessum fjárútlátum? Nú er þetta svo sem ekki það sem jólasveinar gera almennt áður en þeir krækja sér í ketbita, en bitinn sem þeir krækja sér í er heldur almennt ekki svona risavaxinn. 12 milljarðar króna, eða 160.000 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu, er hreinlega of stór gjöf handa einum þrýstihópi án þess að þeir sem greiða fyrir gjöfina verði spurðir. Jafnvel Bjúgnakrækir, Ketkrókur, Kertasníkir og fleiri af þeirri ætt hljóta að sjá það.