Helgarsprokið 12. desember 2010

346. tbl. 14. árg.

Þ

Að sögn stjórnar BSRB þá er það „þingheimur“ sem lagði fram fjárlagafrumvarpið, en ekki vinstristjórnin. Formaður BSRB til 20 ára getur því rólegur setið áfram í ráðherrastólnum sínum.

að er ekkert nýtt að verkalýðsfélög séu notuð í þágu flokkspólitískra hagsmuna, stundum með miklum árangri. Fyrir kosningar byrja þau gjarnan að auglýsa og álykta með einhverjum þeim hætti sem gagnast sumum frekar en öðrum. Milli kosninga halda þau málþing í sama skyni og flytja jafnvel sum inn erlenda kverúlanta til að halda fyrirlestra um nauðsyn sameignar og sósíalisma.

Í ársbyrjun 2005 barðist svilfólkið Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hatrammlega um völd í Samfylkingunni. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 24. janúar 2005 sagði kvaðst fréttastofan hafa það eftir Gylfa Arnbjörnssyni að stuðningur verkalýðshreyfingarinnar við Ingibjörgu Sólrúnu væri ótvíræður. Í viðtali í sama fréttatíma sagði Gylfi svo sjálfur meðal annars: „[Össur] hefur leitt þennan flokk áfram . Við teljum bara hins vegar að það séu þær aðstæður uppi að hann fari ekki lengra með málið, hann klári ekki það stóra hlutverk að flokkurinn komist […] í ríkisstjórn. […] Þannig að auðvitað eru fleiri þættir sem leiða til þess að við teljum að það sé heillavænlegra að Ingibjörg Sólrún taki að sér að leiða flokkinn áfram“.
Hvort sem Gylfi átti þarna við verkalýðshreyfinguna sem slíka, eða einungis hóp forystumanna hennar, þá blasir við að Gylfi Arnbjörnsson og félagar hans töldu stóra hlutverkið vera að koma Samfylkingunni í ríkisstjórn.

Þegar núverandi ríkisstjórn lagði fram frumvarp til fjárlaga var þar gert ráð fyrir nokkrum niðurskurði ríkisútgjalda. Auðvitað var þar gert ráð fyrir of litlum niðurskurði, en þó nægilegum til að gera forystumenn opinberra starfsmanna bálreiða. Í meðförum þingsins hefur tillögunum svo verið breytt þannig að mjög er dregið úr væntanlegum niðurskurði. En samt eru forystumenn opinberra starfsmanna ekki ánægðir. Þeir auglýsa nú í dagblöðunum gegn niðurskurðinum og er ýmislegt um þá auglýsingu að segja. Fyrir nú utan hversu varlega nauðungaraðildarfélög hljóta að verða að fara í pólitískri baráttu, þá er eitt og annað mjög athyglisvert við framsetningu BSRB í auglýsingu sinni.

Auglýsingin vekur athygli og er vel gerð að því leyti. Sýnir hún fjárlagafrumvarpið eins og eina af jólabókunum og auglýsta sem slíka, með þeirri breytingu að allir dómar um hana eru slæmir. En svo kemur það sem segir töluverða sögu um forystumenn BSRB. Höfundur bókarinnar, fjárlagafrumvarpsins, hann er ekki fjármálaráðherra, sem þó leggur frumvarpið fram, og ekki ríkisstjórnin, sem samþykkti frumvarpið fyrir sitt leyti. Nei, „höfundurinn“ er „Alþingi Íslendinga“, sem þó lagði framvarpið ekki fram og hefur þar að auki minnkað niðurskurðartillögur þess verulega. Og kynningartexti BSRB í auglýsingunni hefst á orðunum: „Það er dapurleg lesning sem þingheimur býður þjóðinni upp á fyrir þessi jól.“ Aftur er það ekki fjármálaráðherrann og ekki ríkisstjórnin sem býður upp á fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, heldur „þingheimur“.

Er þetta nokkuð annað en fals? Sem félagsmenn í BSRB greiða með félagsgjöldum sínum. Ætli nokkur fréttamaður muni spyrja forystu BSRB hvers vegna hún auglýsi með þessum hætti?