Mánudagur 13. desember 2010

347. tbl. 14. árg.

J á, það er ómaklega vegið að Steingrími J. Sigfússyni, sem alltaf reynir að gera sitt besta.

Á dögunum voru kynnt drög að nýju samkomulagi um að íslenskir skattgreiðendur taki að óþörfu á sig Icesave-skuldir Landsbankans. Þótt þessi nýju drög séu mjög slæm fyrir Ísland, og þeim beri að hafna, þá eru þau skárri en skelfingarsamningarnir sem ríkisstjórnin barði í gegnum Alþingi í fyrra, með ákafri þátttöku Ríkisútvarpsins og „aðila vinnumarkaðarins“. Munar þar líklega hundruðum milljarða.

Steingrímur J. Sigfússon var fyrir helgi spurður um ábyrgð sína vegna framgöngu sinnar í fyrra. Í hádegisfréttum hinn 10. desember taldi hann slíkar spurningar ódýrar og ósanngjarnar:

Mér finnst nú ekki mjög sanngjarnt að hengja þessa samninga á nöfn einstaklinga. Og ég fullyrði að alveg frá byrjun þessa ólánsmáls hafa allir sem að því hafa komið fyrir Íslands hönd gert sitt besta og þeim hefur ekki gengið neitt annað til en að leysa það á þann besta hátt sem hægt væri miðað við aðstæður hvers tíma. Og það er ódýrt núna að ætla að koma og slátra öllum þeim sem gerðu ekkert annað á sínum tíma en að reyna að finna á þessu ólánsmáli lausn fyrir Ísland.

Já, það er ómaklega vegið að Steingrími, sem alltaf reynir að gera sitt besta.

Þetta er sami Steingrímur og var ein aðal driffjöðurin í því að fá Geir Haarde ákærðan fyrir frammistöðuna í aðdraganda bankaþrotsins. Geir Haarde bíður nú ákæru fyrir brot eins og að hafa ekki haldið ríkisstjórnarfund og að hafa ekki látið vinna heildstæða úttekt á skuldbindingum ríkissjóðs, og hefur þó ekki nokkur maður haldið því fram að honum hafi verið skylt að láta vinna slíka úttekt. Og enginn hefur rökstutt hvernig slík úttekt hefði breytt einhverju sem máli skipti.

En Geir skal dreginn fyrir dóm. Fyrir því stóð Steingrímur J. Sigfússon, en að vísu með sorg í hjarta.

Þegar sami Steingrímur er spurður um ábyrgð þess manns sem reyndi með öllum ráðum að fá hundraða milljarða króna fellda á skattgreiðendur, án nokkurrar lagaskyldu, og barði slíkt í gegnum þingið, þá er hins vegar ódýrt og ósanngjarnt að vera eitthvað að tala um ábyrgð. Hann og ríkisstjórnin voru að gera sitt besta. Meira er ekki um það að segja.

Og það versta í þessu er, að það er líklega rétt hjá Steingrími. Hann var raunverulega að gera sitt besta. Svona er hans besta.

Það verður aldeilis gaman þegar kemur að hans verri stundum.