Þ að var helst í fréttum í kvöld að sjómannaforystan ætlar að hlíta lögbanni sem sýslumannsembættið á Akureyri setti í dag á stéttarfélög sjómanna og Einingu Iðju. Það verður því hægt að landa hindrunarlaust úr Sólbak næst þegar hann kemur til hafnar.“ Framanrituð orð féllu í yfirliti í lok kvöldfrétta Ríkisútvarpsins í gær og hafa vonandi orðið til þess að fleiri en Vefþjóðviljinn hrukku við. Eða hvað, er framganga verkalýðsrekenda orðin með þeim hætti að það er orðið fréttnæmast að þeir hyggjast ekki brjóta lög? Þykir tíðindum sæta að þeir hyggist ekki hindra löglega atvinnustarfsemi? Er ekkert fréttnæmara en sú staðreynd að verkalýðsrekendur í sjávarútvegi standi ekki í vegi fyrir löndun á fiski? Nei, miðað við framgöngu þeirra að undanförnu verður víst að taka undir að það eru tíðindi að mennirnir ætla að láta löglega starfsemi í friði – en um leið hótuðu þeir vitaskuld frekari aðgerðum.
Í fyrradag voru fluttar fréttir af því að þýska ríkisstjórnin hygðist enn draga úr hlut sínum í Deutsche Telekom, en þýska ríkið hefur þegar selt meirihluta fyrirtækisins. Svipaða sögu má segja um flestar aðrar ríkisstjórnir álfunnar, enda er nú orðið leitun að ríkissímafyrirtæki í hinum vestræna heimi. Og um íslensku ríkisstjórnina má segja að hún hefur í hyggju að fara sömu leið og flestar aðrar ríkisstjórnir og selja ríkissímann íslenska. En hvað gerist þá á Alþingi Íslendinga? Jú, í fyrradag gerðist það – og ekki í fyrsta sinn og líklega ekki það síðasta – að nokkur nátttröll úr stjórnarandstöðunni runnu upp í ræðustól og andmæltu sölu fyrirtækisins. Einna mest fór þar fyrir Guðjóni A. Kristjánssyni formanni Frjálslynda flokksins, sem er frjálslyndur flokkur í afar óhefðbundnum skilningi og að minnsta kosti ekki klassískum. Annar fyrirferðamikill í þessari umræðu var Ögmundur Jónasson þingmaður vinstri-grænna, sem lét sér í umræðunum ekki nægja að mótmæla sölu Landssímans heldur bætti um betur og hnýtti í einkavæðingu bankanna, sem hefði aldrei orðið ef hann hefði mátt nokkru ráða.
Guðmundur Hallvarðsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins var einn þeirra sem hélt fram öðrum sjónarmiðum og minnti meðal annars á að hér á landi hefðu í eina tíð verið starfandi ríkisfyrirtækin Viðtækjaverslun ríkisins og Bifreiðaeftirlit ríkisins. Guðmundur minnti einnig á að vinstri menn hefðu barist gegn því að aflétt yrði einokun ríkisins á útvarpsrekstri, sem var ágæt áminning um það að baráttan gegn sölu Landssímans er ekki fyrsta barátta vinstri manna gegn framfaramálum.