ÍKastljósinu í fyrrakvöld var rætt við Eggert Magnússon knattspyrnuforkólf og áhugamann um að skattgreiðendur standi enn frekari straum af áhugamáli hans en orðið er. Eyrún Magnúsdóttir, nýr þáttastjórnandi, hafði orð á því við Eggert að fyrirhuguð stækkun stúkunnar kosti talsvert fé og Sigmar Guðmundsson, sem stýrði þættinum ásamt Eyrúnu, spurði hvort vitað væri hversu margir leikir það væru sem að hefði verið hægt að selja fleiri miða á en gert var, því að ýmsir teldu það skipta máli um hvort forsvaranlegt væri að fara út í stækkunina. Eggert Magnússon gaf lítið fyrir þessar vangaveltur og svaraði þeim að bragði svona: „Ég kasta því nú öllu fyrir róða að það sé ekki forsvaranlegt að fara í þessa framkvæmd. Við erum orðin langt á eftir öllum þeim nágrannaþjóðum – og meira að segja Austur-Evrópuþjóðum – hvað varðar uppbyggingu á okkar þjóðarleikvangi. Og það er satt að segja sko orðinn úreltur þjóðarleikvangurinn okkar, þannig að við þurfum virkilega að taka til hendinni og gera þær endurbætur sem að þarf að gera. Aukningin tel ég vera til að mæta þörf þess knattspyrnuunnendahóps sem að vill koma á völlinn en finnst þetta aðeins of dýrt.“
Eyrún ítrekaði þá spurninguna sem Eggert vék sér undan og vildi fá fram hversu oft á ári væri uppselt á Laugardalsvöllinn. Eins og sjá má vafðist svarið ekki fyrir baráttumanni fyrir auknum opinberum útgjöldum: „Ja, sko til dæmis í ár, ætli sé ekki óhætt að segja að við hefðum getað selt svona allavegana tvisvar, jafnvel þrisvar. Við erum ekkert að tala um marga landsleiki á ári, en það á líka eftir að breytast núna, því að það er mjög stutt í það að Evrópuknattspyrnusambandið, þar sem ég sit nú meðal annars í stjórn, mun taka ákvörðun um það í öllum keppnum þar verði heimilt að spila á gervigrasi. Og þegar að sú ákvörðun liggur fyrir að þá er stutt í að komi gervigras á Laugardalsvöll og þá getum við raunverulega spilað landsleiki hvenær sem er á árinu ef við höfum stúkur til þess að mæta þörfinni við það fólk sem vill koma og horfa á okkur.“
Þannig var þetta nú. Orðrétt. Tvisvar, jafnvel þrisvar, hefði mátt selja meira en núverandi stúka býður upp á. Og þess ber að geta að það er ekki á hverju ári sem landslið Ítala sækir það íslenska heim, þannig að þetta hefur nú líklega verið heldur gott ár. Niðurstaðan er sem sagt sú að nýtingin á stækkaðri stúku verður að líkindum nánast engin, en auk þess upplýsti Eggert svo að framundan væri að leggja gervigras á Laugardalsvöllinn og varla þarf að spyrja tvisvar hverjir eigi að greiða fyrir það. En mun gervigras á Laugardalsvellinum þýða að nýtingin mun stórbatna? Verður stækkuð stúka full af fólki allan veturinn? Munu landsmenn troðast á völlinn í snjóbyl eða frosthörkum um miðjan janúar? Eða voru þetta bara enn ein dellurökin fyrir stækkun stúkunnar í Laugardalnum?