F yrirtæki eitt mun hafa tekið upp á því að óska eftir því við væntanlega starfsmenn sína að þeir heimili því að taka úr þeim svokölluð lífsýni nær fyrirtækið vill, og á þannig að vera hægt að kanna hvort þeir eru á einhverjum öðrum efnum en rítalíni. Eða Vídalíni. – Hvernig er það, ætti ekki að gefa ofvirkum biskupum vídalínskammt? – Jæja, en já þetta ráðningarskilyrði rataði inn á Alþingi í gær, þar sem Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaur Samfylkingarinnar stóð fyrir – jú – utandagskrárumræðu um þetta stórmál. Ágúst virtist reyndar átta sig á því að vinnuveitanda væri heimilt að setja skilyrði eins og þetta, rétt eins og samningsaðilar mega almennt krefjast þess sem þeim sýnist og svo er það undir hinum komið hvort samningar nást. En þó Ágúst teldi þetta löglegt þá… ja það þarf ekki að klára frasann. Hann semsagt taldi með öllu siðlaust að setja slík skilyrði því vart væri um raunverulega samninga að ræða því launþeginn ætti ekkert val, hann fengi ekki vinnuna nema gangast undir skilyrðið.
En ef menn fara nú að líta svo á að samningsákvæði eins og þessi séu tæpast gild þar sem annar aðilinn, launþeginn, skrifi undir nolens volens, hvað má þá segja um hefðbundna kjarasamninga? Skrifa vinnuveitendur ekki undir almenna kjarasamninga með „verkfallsvopnið“ beint að sér? Hvað er að marka samninga sem menn gera með byssuhlaup við ennið? Eru ekki vinnuveitendur undir þeim hótunum að verði ekki gengið að tilteknum kröfum muni starfsmennirnir ekki aðeins hætta að vinna sjálfir heldur banna öllum öðrum að „ganga í störfin“ – með öðrum orðum, starfsmennirnir hóta að loka fyrirtækinu. Og með fylgir að menn vita að lögreglan mun horfa aðgerðalaus upp á stéttvísa „verkfallsverði“ loka öllu og læsa. Ef nokkurt minnsta vit er í þeirri kenningu Ágústs að ekki sé mark að samningsákvæðum í ráðningarsamningi, hvernig ætla menn þá að halda kjarasamningi upp á vinnuveitendur?
Undanfarið hefur áhugi á notkun einkakvóta við nýtingu auðlinda vaxið mjög. Nú hafa nokkur samtök tekið sig saman um vefsvæði til að kynna kvótakerfi í fiskveiðum á borð við hið íslenska fyrir ráðamönnum víða um heim, ekki síst í Bandaríkjunum. Það eru PERC, Environmental Defense, and Reason Foundation sem standa að þessu verkefni. Það er mikill áhugi á því víða um heim hvernig Íslendingar, Ný-Sjálendingar og fleiri hafa stöðvað ofnýtingu sjávarauðlinda og gert útgerð að alvöru atvinnugrein.
Þetta hafa þessar þjóðir gert með því að binda hagsmuni útgerðarinnar við ástand fiskistofna með kvótasetningu. Því betur sem útgerðin gengur um auðlindina því verðmætari verður kvótinn. Þeir sem sjá ofsjónum yfir verðmæti kvótans eru í raun að viðurkenna að kerfið hafi gengið vel. Um leið og fiskistofnarnir veikjast lækkar verðið á kvótanum en hækkar að sama skapi ef nýting þeirra er hófleg. Það er þó óþarfi að láta eins og þetta sé einhver nýjung því öldum saman hafa menn haft sama kerfi á öðrum auðlindum, eins og beitarlandi, ræktarlandi, olíulindum, laxveiðiám, veiðivötnum, æðavarpi, námum og fleira. Það er bara eins og þegar vatnið sem nýta á er salt þá hætti sumir að skilja kosti einkaeignarréttarins.