Stríð ríkisvaldsins gegn notkun fíkniefna hefur verið háð af mikilli hörku. Árangurinn lætur á sér standa og víða leita menn nú annarra leiða. |
Vilja menn leyfa innbrot? Þannig spurði yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar í lokaþættinum um dópstríðið sem Ríkissjónvarpið hefur sýnt undanfarin sunnudagskvöld. Ástæða þess að hann spurði svo einkennilega er að því er stundum haldið fram að það tjói ekkert að banna fíkniefni því menn muni halda áfram að framleiða þau, selja, kaupa og nota. Til að slá þessa röksemd út af borðinu spyrja menn gjarnan hvort ekki sé bara rétt að gefast upp fyrir öllum hinum glæpunum líka. Það takist hvort eð er aldrei að koma í veg fyrir alla glæpi. Innbrot verði framin þótt þau séu bönnuð.
Um aldir hafa fíkniefni, bæði lögleg og ólögleg, verið mörgum mikið böl þótt svo einkennilega vilji til að þau hafi einnig veitt mörgum ómælda ánægju. Taumlaus neysla fíkniefna er þó fyrst og síðast sjálfskaparvíti; menn leggja eigið líf að veði og fórna því jafnvel fyrir vímuna. Fórnarlamb fíkniefnaneytandans er hann sjálfur. Fórnarlamb þjófsins sem brýst inn í bíla, heimili og fyrirtæki er augljóslega ekki hann sjálfur þótt hann verði sjálfsagt ekki betri maður á eftir. Fíkillinn er hins vegar eins og þjófur sem stelur frá sjálfum sér og selur þýfið fyrir slikk. Hann stelur lífinu frá sjálfum sér og kastar því á glæ. Er fíklinum – eða nokkrum öðrum – einhver hjálp í því gera neysluna að lögbroti? Væri forföllnum drykkjumanni þægð í því að vera gerður að enn meiri utangarðsmanni með því að gera vínið ólöglegt? Það er því skýr munur á fíkniefnanotkun og innbroti: Fíkniefnaneytandinn gerir ekkert á hlut annarra með neyslu sinni en þjófurinn gengur freklega á rétt annarra þegar hann ræðst inn á heimili þeirra og rænir þá eigum sínum.
En eru það ekki fíkniefnaneytendur sem fremja mörg innbrotanna sem getið er um nær daglega á síðum dagblaðanna. Jú, líklega er það rétt. En innbrotin eiga sér ekki stað vegna fíkniefnanna heldur vegna fíkniefnabannsins. Það er augljóst að áhættan við framleiðslu og dreifingu fíkniefna keyrir verðið á þeim upp úr öllu valdi. Þeir sem ánetjast fíkniefnum tapa því oft mjög fljótt öllu sínu vegna hins háa verðs á efnum og leiðast út í afbrot til að redda næsta skammti. Fíkniefnabannið gerir fíklana gjaldþrota á augabragði og rekur þá í afbrot til að fjármagna neysluna. Bannið leiðir til þess að grandalausir borgarar verða fórnarlömb innbrota, rána og þjófnaða.
Yfirmaður fíkniefnalögreglunnar hefði því ekki getað valið verra dæmi, hafi það átt að vera banni við fíkniefnum til stuðnings. Í spurningu hans kristallast að fíkniefnabannið skapar meiri vanda en því er ætlað að leysa.