Það vantaði víst ekkert annað en hálfan milljarð króna í viðbót við þau útgjöld sem Reykjavíkurborg ver þegar til íþróttamála. Og þó, líklega telja íþróttaforkólfar og stjórnmálamenn í atkvæðaleit að enn meira opinbert fé vanti til þessa málaflokks eins og annarra, en í öllu falli er Reykjavíkurborg búin að „semja“ við Knattspyrnufélagið Val um að gefa félaginu 515 milljónir króna af skattfé borgarbúa. Borgarstjóri telur þetta gríðarlega góðan „samning“, en hann felur í sér að byggt verður nýtt íþróttahús og knattspyrnuvellir auk annarra smærri framkvæmda. Til viðbótar var „samið“ um að skattgreiðendur í Reykjavík myndu gera gervigrasvöll fyrir Val fyrir árslok 2007.
Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár munu skatttekjur borgarinnar aukast um rúma tvo milljarða króna milli ára og verða um 30,6 milljarðar króna. Skatthlutfall Reykjavíkurborgar hefur sem kunnugt er farið hækkandi undir stjórn R-listans þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða og skatttekjurnar hafa einnig farið stöðugt vaxandi. Þegar minnst er á lækkun skatta er viðkvæðið jafnan hið sama; ekkert svigrúm er til skattalækkunar því verkefnin eru svo mörg og ómissandi. Og ef bent er á að útsvarsprósentan hafi farið ört vaxandi á síðustu árum er á móti sagt að útsvarið sé þó ekki í toppi. Í greinargerð með frumvarpi að fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár er meira að segja getið um að fyrir hendi sé „ónýtt heimild til hækkunar útsvarsstofns um 0,33% eða sem jafngildir 695 mkr.“, og stjórnendur borgarinnar virðast telja sér sérstaklega til ágætis að hafa ekki enn tekið allt það af Reykvíkingum sem hugsanlegt væri.
Íþróttahreyfingin er meðal skæðustu sækjenda í skattfé almennings sem um getur, en keppir þar við marga aðra fjárfreka þrýstihópa og engin leið er að fullyrða um hver þeirra er frekastur. Eitt er þó hægt að fullyrða: Reykjavíkurborg þurfti alls ekkert að taka hálfan milljarð króna aukalega af skattgreiðendum sínum til að byggja frekari mannvirki fyrir Knattspyrnufélagið Val. Í stað þess að láta Val hafa þessa fjárhæð hefði mátt láta nægja að hækka skattana um 1,5 milljarða króna milli ára, og hefði ýmsum þótt nóg um samt.