Ádögunum kom út tímaritið Meistarinn, fréttarit Meistarasambands byggingamanna. Meðal þess sem fjallað er um í blaðinu eru svo kallað iðnaðarmálagjald og Samtök iðnaðarins, en hvort tveggja hefur komið til tals í Vefþjóðviljanum á liðnum árum. Samkvæmt lögum nr. 134/1993 er lagt sérstakt gjald á iðnað í landinu og rennur það til Samtaka iðnaðarins, sem skulu samkvæmt lögunum nota þessar tekjur til að „vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu“. Vefþjóðviljinn hefur álitið afar óeðlilegt að skylda iðnfyrirtæki landsins til að greiða þetta mikla gjald til þessara samtaka og ekki verður gjaldskyldan betri þegar horft er til þess að Samtök iðnaðarins standa fyrir samfelldri herferð fyrir tilteknu pólitísku baráttumáli, það er að segja inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þetta baráttumál eru öll íslensk iðnfyrirtæki skylduð til að styðja og eru geðfelld rök vandfundin fyrir slíkum skyldugreiðslum. Það er óhætt að hvetja alþingismenn til að losa iðnfyrirtækin undan þeirri skyldu að fjármagna baráttu þessara samtaka, þó að iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins verði sjálfsagt tregur í þeim taumi. Að minnsta kosti er hætt við að ýmsum þyki freistandi að halda áfram að neyða frjáls fyrirtæki til að fjármagna Evrópubaráttu núverandi forystu Samtaka iðnaðarins.
Í forystugrein í Meistaranum fjallar Baldur Þór Baldvinsson, formaður Meistarasambands byggingamanna, um iðnaðarmálagjaldið og Samtök iðnaðarins og er lítið hrifinn:
Fjárskortur er eitthvað sem Samtökum iðnaðarins er framandi, því samtökin vaða í peningum sem þau fá á silfurfati frá öllum iðnaði í landinu, burtséð frá því hvort félög eru innan eða utan Samtaka iðnaðarins. Það kom fram í fyrirspurn Ástu Möller á Alþingi s.l. vetur, um opinber framlög til hagsmunasamtaka og frjálsra félagasamtaka, að á árunum 1996-2000 fengu Samtök iðnaðarins, á verðlagi hvers árs, kr. 668.300.000,-. Ég endurtek það sem fram kemur annars staðar í þessu blaði. Samtök iðnaðarins gætu hreinlega lifað góðu lífi án þess að hafa einn einasta félagsmann. Þetta er mikið vald, sem Samtök iðnaðarins, fyrir hönd alls iðnaðar í landinu, fá í hendur, og þau eru síðan algerlega einráð um það á hvren hátt þau útdeila og fara með þetta fé. Félög sem standa utan Samtaka iðnaðarins eru algjörlega afskipt, alræðisvaldhafanum þóknast ekki að hafa slík félög með í umræðum og stefnumótun. Byggingariðnaðurinn hefur svo sannarlega fengið að finna fyrir því. Má í því sambandi minna á meðferð og afgreiðslumáta Samtaka iðnaðarins varðandi löggildingarnámskeiðin og Iðnráðin. |
Í nýútkomnu fréttabréfi Samtaka iðnaðarins, Vatnsberanum, lekur hrokinn úr penna framkvæmdastjóra SI. Þarna er á fer[ð]inni maður með fullar hendur fjár, sem gerir lítið úr þeim sem standa utan Samtaka iðnaðarins. Hann skorar á menn að bera saman hvað þeir fái fyrir félagsgjaldið í félögum utan og innan samtakanna. Segir Samtök iðnaðarins óhædd við slíkan samanburð. Ef þetta er ekki hroki, hvað er það þá! Framkvæmdastjórinn veit fullvel, eins og allir aðrir sem láta sig málið varða, að Samtök iðnaðarins lifa ekki á félagsgjöldum. Þau lifa hins vegar góðu lífi á Iðnaðarmálagjaldinu, skatti sem allur iðnaður í landinu verður að borga og það er alveg ljóst, að umtalsverður hluti þessa skatts kemur frá aðilum sem ekki eru innan Samtaka iðnaðarins. Utan Samtaka iðnaðarins eru fjölmargir hagsmunaaðilar. Auk Meistarasambands byggingamanna, með tæplega 600 félagsmenn, allir byggingameistarar, þar á meðal flestir, ef ekki allir, stærstu byggingameistarar landsins, þá standa utan Samtaka iðnaðarins megnið af rafiðngreinum í landinu. Bílgreinasambandið er ekki aðili að samtökunum, frekar en fjöldinn allur af fyrirtækjum innan verslunarinnar. Svona mætti lengi áfram telja. Öllum þessum aðilum er þó gert að greiða þennan skatt sem iðnaðarmálagjaldið vissulega er, og þessi skattur rennur síðan, samkvæmt lögum, til Samtaka iðnaðarins. |