Markaðurinn hlýtur að ráða því hvort hér verði byggt nýtt hótel. Sé eftirspurn nægjanleg og hagnaðarvon ásættanleg þá munu fjárfestar líta til þessa verkefnis. Mér finnst óeðlilegt að hið opinbera sé að íhlutast um það og það samræmist ekki nútíma viðskiptaháttum eða stefnu núverandi ríkisstjórnar. |
– Hrönn Greipsdóttir hótelstjóri Radisson SAS Hótel Sögu í viðtali við Viðskiptablaðið 15. október 2003. |
Þ
Þótt kostnaðaráætlun hafi fjórfaldast á nokkrum árum er ekki þar með allt talið. Fína fólkið vill ekki fara yfir götu. |
að kom fram á dögunum að kostnaðaráætlun vegna byggingar enn eins tónlistarhúss á höfuðborgarsvæðinu hefði fjórfaldast frá árinu 1997. Árið 1997 var gert ráð fyrir að bygging hússins kostaði 1.550 milljónir króna en nýjustu áætlanir gera ráð fyrir 6.300 milljónum króna. Vefþjóðviljinn skýrði frá þessu eins og fleiri. Það sem kom þó ekki fram að þessu tilefni er að inn í nýjustu tölunum eru ekki þær gatnaframkvæmdir sem tónlistarhús við höfnina hefur í för með sér. Tónleikagestir munu ekki láta bjóða sér að fara yfir götu á leið sinni og því verður grafin gönguleið undir götuna eða gatan grafin í jörð. Kostnaðurinn hefur því fjórfaldast frá árinu 1997 án þess að reiknað sé með kröfunni um að þurfa ekki að fara yfir götu. Á síðasta ári undirrituðu ríki og borg samkomulag um hvernig kostnaður við herlegheitin mun skiptast. Eyðendurnir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, Sturla Böðvarsson ferðmálaráðherra og Geir Hilmar Haarde fjármálaráðherra stilltu sér upp fyrir myndavélarnar að því tilefni og tókust í hendur að lokinni undirritun. Það merkilega við þetta samkomulag um kostnaðarskiptingu var að ekki var tekið í höndina á þeim sem greiða kostnaðinn. Engir fulltrúar greiðenda voru viðstaddir þótt þarna væri gert samkomulag um að þeir eyddu enn stærri hluta ævinnar í að vinna fyrir sköttum. Eyðendurnir stofnuðu svo í apríl „einkahlutafélag“ í eigu ríkis og borgar til að annast framkvæmdina.
Á þessari byggingu er svo annar hængur. Við hana á að hengja hótel og ráðstefnumiðstöð sem kosta á annað eins. „Einkahlutafélag“ hins opinbera, ríkis og borgar, hefur það mál einnig á sinni könnu og hefur í hyggju að leita að erlendum félaga um rekstur hótelsins. Það kemur ekki á óvart að ýmsir sem þegar reka hótel og ráðstefnusali hafa áhyggjur af því að hið opinbera ætli sér að blanda sér í byggingu hótels og stærstu ráðstefnuhallar landsins. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku var einmitt rætt við nokkra hótelstjóra. Bæði Hrönn Greipsdóttir á Hótel Sögu og Ólafur Torfason á Grand Hótel lýsa áhyggjum sínum af því að lenda í samkeppni við hótel sem sé svo samofið opinberri framkvæmd. Með milljarða framlagi hins opinbera til tónlistar- og ráðstefnuhúss muni halla á önnur fyrirtæki í þessum rekstri.
Í byrjun mánaðarins kynnti „einkahlutafélag“ hins opinbera svo athugunum erlends ráðgjafafyrirtækis á rekstragrundvelli á heila klabbinu. Er skemmst frá því að segja að bæði tónlistar- og ráðstefnuhúsið og hótelið eiga að mala gull frá fyrsta degi. Svo segir erlenda ráðgjafafyrirtækið að minnsta kosti. Þá liggur auðvitað beint við að spyrja hvort fyrsta verk „einkahlutafélags“ hins opinbera verði ekki að óska eftir tilboðum í þessa frábæru viðskiptahugmynd og losa þar með skattgreiðendur við fjárútlátin og áhættuna sem þessum rekstri fylgir.
Um rekstrarforsendurnar segir Hrönn Greipsdóttir hins vegar í viðtalinu við Viðskiptablaðið: „Það segir sig síðan sjálft að ef það fæst ekki nokkur aðili til að reisa tónlistar- og ráðstefnuhöll nema hið opinbera þá er það vegna þess að það er ekki nokkur von til þess að hagnast á því.“