Föstudagur 5. september 2003

248. tbl. 7. árg.

Gaui litli, sem hvorki er Gaui né lítill, heldur Guðjón Sigmundsson og þó nokkuð stór, er í viðtali við tímaritið Fitness fréttir, sem dreift er um landið þessa dagana. „Hið opinbera er ekki að taka á offituvandamálinu,“ er haft eftir Guðjóni á nútímalegri ísl-ensku. Um leið og hann skýrir frá vinnu sinni og rannsóknum í tengslum við offitu, lýsir hann þeirri skoðun sinni í þessu viðtali að það sem feitir þurfi að fá séu stöðugildi hjá hinu opinbera. Og með því á hann ekki við að hið opinbera eigi að ráða feita í vinnu umfram aðra – þó að það sé líklega ekki óeðlilegri „jákvæð“ mismunun en önnur slík – heldur að ríkið eigi að ráða menn í vinnu til að vinna gegn mannfitu í þjóðfélaginu. Guðjóni er illa við fituna en vel við feita menn og vill þess vegna allt til vinna að þeir nái af sér aukakílóunum. Við þessa viðleitni Guðjóns er ekkert að athuga og vafalítið getur hann lagt ýmsum lið í baráttunni við þessi óæskilegu kíló. En hann ætti að láta þar við sitja.

Hann er heldur hvimleiður sá ósiður áhugamanna um velflest málefni að þurfa sí og æ að blanda hinu opinbera inn í áhugamál sín. Þessi ósiður á raunar stóran þátt í því vandamáli að hið opinbera þenst linnulítið út, því þessir þrýstihópar eru svo að segja óteljandi og allir vilja þeir að hið opinbera ráði til sín starfsmenn til að sinna áhugamáli þeirra. Og ekki þarf að taka fram að áhugamál þeirra er flestum öðrum málum mikilvægara og þess vegna finnst þeim ekki nema sjálfsagt að því sé sinnt fyrst ríkið greiðir niður landbúnaðarframleiðslu, greiðir ferðakostnað ráðherra, greiðir listamönnum starfslaun, greiðir göng til Siglufjarðar eða hvað það nú er sem bent er á til réttlætingar aukinni eyðslu. Svo er það heldur ekki þannig, segja talsmenn þrýstihópanna, að það þurfi að eyða miklu til að stórbæta ástandið. Þótt ekki yrðu ráðnir nema örfáir menn gæti náðst gríðarmikill árangur. En vandinn við þessa örfáu menn er hinn sami og við aukakílóin, þeim fjölgar yfirleitt með árunum. Örfáir menn verða svo fljótlega að sjálfstæðri opinberri stofnun með tilheyrandi skrifræði og tug- eða hundruða milljóna króna kostnaði á hverju ári. Allur lendir þessi kostnaður vitaskuld á skattgreiðendum, sem hafa þeim mun minni peninga og tíma til að sinna eigin hugðarefnum, hvort sem það er líkamsrækt, trjárækt eða eitthvað allt annað.