Þ
Skyndikönnun á íslenska fjölmiðlamarkaðnum hefur leitt í ljós að fleiri en ríkið geta framleitt og sent út sjónvarpsefni. |
að er svo skrýtið með það sem ekki er hægt að gera, að stundum er það gert. Það er til dæmis ekki hægt að einkavæða ríkisútvarp eða ríkissjónvarp á Norðurlöndum, en þrátt fyrir það samþykkti danska þingið síðast liðinn miðvikudag að selja ríkissjónvarpið TV 2. Menningarmálaráðherra Danmerkur, Brian Mikkelsen, lagði fyrir þingið frumvarp um að breyta TV 2 í hlutafélag í eigu ríkisins með það að markmiði að skrá það síðan í kauphöll og selja hlutabréfin. Ekki þurfti að hafa áhyggjur af stuðningi stjórnarandstöðunnar, þar sitja nútímalegir jafnaðarmenn sem eru ámóta fylgjandi breytingum í frjálsræðisátt og íslenskir félagar þeirra hafa jafnan verið.
Menningarráðherrann skrifaði athyglisverða grein í Berlingske Tidende um síðustu helgi þar sem hann fjallar um einkavæðingu TV 2 og afstöðu stjórnarandstöðunnar. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt söluna og haldið því fram að sjónvarpsstöðin versni í höndum einkaaðila. Þeir muni ekki sinna innlendri dagskrárgerð sem skyldi en sýna þess í stað sápur frá Bandaríkjunum, sem er víst það versta sem nokkur sjónvarpsstöð getur boðið áhorfendum upp á. Menningarráðherrann hafnar þessu sjónarmiði alfarið og telur af og frá að sjónvarpsstöðin hætti með vinsælustu og bestu þættina. Hann tekur dæmi af bílaverksmiðju sem framleiðir góða bíla sem seljast vel. Ef verksmiðjan er seld, er þá líklegt að kaupandinn taki upp á því að framleiða verri bíla sem njóta minni vinsælda? Eins og gefur að skilja telur menningarráðherrann það hæpið.
Íslenska ríkið rekur tvær útvarpsstöðvar og eina sjónvarpsstöð sem ekki er hægt að selja frekar en dönsku ríkissjónvarpsstöðina sem nú verður seld. Þessir íslensku ríkisfjölmiðlar eru orðin mikil nátttröll og tímabært að skipta um eignarhald á þeim. Slíkar breytingar mætti gera í skrefum eða einu lagi, það skiptir ekki miklu máli. En það skiptir töluverðu máli að ríkið hætti að starfrækja fjölmiðla, rétt eins og það skipti máli að ríkið hætti að reka prentsmiðju, skipafélag eða banka.
Vilji ríkið halda áfram að styrkja innlenda dagskrárgerð væri skárra að gera það með beinum styrkjum við einstaka þætti en með því að reka fjölmiðil. Rekstur Ríkisútvarpsins er dýr og fyrir mun minna fé en lagt er í Ríkisútvarpið mætti framleiða mikið magn af innlendu dagskrárefni fyrir sjónvarp og útvarp. Með því að binda framleiðslu þess ekki við Ríkisútvarpið fengju fleiri tækifæri til að spreyta sig á dagskrárgerðinni og líklegt er að hún yrði bæði hagkvæmari og betri.