Í belgíska þinginu er nú unnið að því að setja lög um vændi. Þessi lög eru ekki eins og þau sem stjórnlynda menn dreymir um, heldur er tilgangur laganna að gera vændi löglegt og tryggja þar með að þeir sem starfa við vændi njóti fullra réttinda eins og þeir sem stunda aðrar atvinnugreinar. Þrjár vikur eru frá því að þing Nýja-Sjálands felldi úr gildi bann við vændi. Lagafrumvarpið var ekki lagt fram af ríkisstjórninni, heldur þingmanni Verkamannaflokksins og naut stuðnings ýmissa hópa, meðal annars þeirra sem starfa við vændi. Þjóðverjar og Hollendingar hafa einnig farið þá leið að leyfa vændi og þeir sem stunda vændi í þessum löndum búa nú við aukin réttindi, hafa til að mynda sjúkratryggingar sem þeir höfðu ekki áður. Í Tælandi er þrýst á um samskonar lagasetningu, bæði af hálfu þeirra sem stunda atvinnugreinina og annarra sem telja farsælla að vændi sé ofan jarðar en undir yfirborðinu.
Staðreyndin er sú að elsta atvinnugreinin verður ekki stöðvuð með því að banna mönnum að stunda hana sér til viðurværis líkt og gert hefur verið hér á landi og víða annars staðar. Um vændi gildir hið sama og um ýmsa aðra „glæpi“ án fórnarlamba, þeir þrífast vel undir yfirborðinu, og atvinnustarfsemi sem reka þarf undir yfirborðinu í trássi við lög hefur það oft í för með sér að óprúttnir einstaklingar nýta sér aðstæðurnar, skipuleggja glæpastarfsemi og hagnast vel á vafasömu hátterni. Allt í skjóli þess að starfsemin fer fram án þess að þeir sem koma nálægt henni geti leitað réttar síns ef á þeim er brotið.
Þetta er vandamál sem fylgdi bannárunum, þegar óleyfilegt var að selja áfengi og upp spratt skipulögð glæpastarfsemi sem malaði gull og varð bæði öflug og hættuleg. Hið sama á við um bann við fjárhættuspilum, sölu fíkniefna og allri annarri starfsemi þar sem bæði veitendur og þiggjendur þjónustunnar ganga sjálfviljugir til viðskiptanna en lögin gera það að verkum að viðskiptin verða að fara fram með leynd. Hér á landi hafa sumir kallað eftir strangari lögum um vændi og fleiri glæpi án fórnarlamba. Sú krafa byggist á þeim misskilningi að með því að banna það sem sumum þykir óæskilegt sé hægt að láta það hverfa. Starfsemin hverfur hins vegar ekki, heldur flyst undir yfirborðið og þrífst þar með tilheyrandi vandamálum. Hér á landi væri ráð að gera líkt og ýmsir aðrir hafa gert; að viðurkenna að ekki er hægt að stöðva vændi, en að þess í stað er hægt að láta um það gilda skynsamleg lög líkt og um aðra atvinnustarfsemi.