„Rúm sem ætlað er einum gesti skal vera a.m.k. 2 x 0,9 m og tveimur gestum 2 x 1,4 m.“ |
„Þar sem boðið er upp á eldunaraðstöðu skal vera eldavél, ísskápur, uppþvottavaskur og fullnægjandi borðbúnaður.“ |
– Úr drögum að starfsleyfisskilyrðum umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur fyrir gistiskála. |
Nú eru kannski ekki svo margir gistiskálar í Reykjavík að það kalli á mikla reglugerðabálka. En líklega er rétt að taka enga sénsa í þessum efnum. Ef hægt er að setja flóknar reglur um einfalda hluti þykir það sjálfsagt, nútímalegt og faglegt. Eða vilja menn eiga á hættu að göngugarpar í borginni, til dæmis á hinni vinsælu leið um Laugaveginn, komi í gistiskála og lendi í rúmum sem eru kannski ekki nema 0,85 m breið? Eða þurfi að tvímenna á 1,3 metra? Og þegar menn ætla að elda sér í „eldunaraðstöðunni“ þá væri ekki eldavél til staðar?
Það gleymist stundum þegar menn setja reglur sem þessar þar sem það er gert að skyldu að hafa þjónustu svona og svona að menn eiga alltaf á hættu að einfaldlega verði hætt að bjóða upp á þjónustuna. Flóknar og strangar reglur hafa ekki síður letjandi áhrif á framtaksemi manna en háir skattar. Menn geta þannig velt því fyrir sér hvort þeir vilji fremur geta fleygt sér í rúm sem er 1,9 metrar að lengd, eftir erfiða göngu upp Bankastrætið, en ekkert rúm.