Öðru hverju í afskekktum frumskógi austur í löndum hittast menn, sem fóru í mannsaldur huldu höfði og halda að styrjöldin geisi enn.
Oss finnst að sjálfsögðu furðu gegna slík fávísi, en hvað um alla þá, sem ennþá trúa því fullum fetum að friður sé löngu kominn á?
- Tómas Guðmundsson, Friður
Það er ekkert skrýtið að atburðir síðustu daga reyni á ýmis þolrif. Það þarf ekkert að vera undarlegt, þó það vefjist fyrir einhverjum að gera það upp við sig hvaða afstöðu hann á að taka til þeirra mála sem nú ber hærra en önnur, víðs vegar um heiminn. Á að beita nauðsynlegu hervaldi til að losa Íraka undan stjórn Saddams Husseins og aðrar þjóðir undan hættunni á þeim illverkum sem hann er með réttu eða röngu talinn líklegur til að reyna að valda í framtíðinni ef honum gefst tækifæri til? Á kannski fremur að treysta því að eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna geti með fullnægjandi hætti fullvissað sig og aðra um að Saddam ráði ekki yfir þeim vopnum sem geti ógnað öryggi annarra þjóða? Eða á jafnvel að láta Saddam „njóta vafans“ og ekki taka á honum fyrr en hann hefur næst gert eitthvað alvarlegt af sér?
Það er ekki nema eðlilegt að fólk velti þessum hlutum fyrir sér og skoðanir séu skiptar. Þó að sá möguleiki sem hér var nefndur síðastur, sá að láta Saddam með öllu vera, njóti væntanlega sáralítils stuðnings og sé lítið ræddur í alvöru þá má færa rök fyrir og gegn hinum tveimur. Þegar fólk reynir að gera upp við sig – hver eftir sinni dómgreind, því fátt annað hafa menn til að styðjast við – þá verður auðvitað fyrst að átta sig á því við hvern er að fást. Það er ekki verið að skipta við neina venjulega ríkisstjórn. Það eru ekki Bondevik og Noregur eða Schussel og Austurríki sem hér eiga í hlut; nei sá sem grunaður er um að lúra á hættulegum vopnum og hefur alveg klárlega þvælst fyrir og reynt að leiða eftirlitsmenn afvega, er Saddam Hussein, maður sem beitt hefur hrottalegustu aðferðum sem völ er á. Hann er ekki eini harðstjóri heims en hann er allt um það maður sem hefur oftar en einu sinni ráðist inn í nágrannaríki sín, skotið eldflaugum á fjarlægara ríki, dælt eiturgasi á eigin landsmenn og erlenda og stjórnað með ofbeldi og pyntingum í meira en tvo áratugi. Hann hefur lengi haft í heitingum við Vesturlönd, og þá einkum Bandaríkin, og enginn þarf að ímynda sér að hann sé ekki maður til að reyna að standa við stóryrði ef færi gefst.
Um þetta verður ekki deilt af neinni alvöru. Hitt er hins vegar fullgilt deilumál hvort þessi atriði, sem óhætt mun að kalla staðreyndir, kalla óhjákvæmilega á að manni þessum verði komið frá völdum þegar í stað með hvaða ráðum sem nauðsynleg kunna að reynast. Það er í fyllsta máta eðlileg afstaða að vilja forðast stríð svo lengi sem mögulegt er. Þó árás leiði efalítið til þeirrar góðu niðurstöðu að Saddam Hussein verði komið frá og líf og allar aðstæður hins almenna Íraka myndu batna geysilega, þá getur enginn sæmilegur maður leitt hjá sér þá staðreynd að í hverju stríði mun saklaust fólk annað hvort örkumlast eða láta lífið. Eignatjón, sem alltaf verður, ræður engum úrslitum um hvað gera skal enda má alltaf bæta slíkt. Það eru líf og limir almennra borgara sem alltaf munu mæla gegn árás. Og svo munu einhverjir vitaskuld velta fyrir sér hættunni á hefndaraðgerðum sem hitt gætu Vesturlandabúa sjálfa fyrir.
En hversu sárt menn kann að taka að hefja árás sem þeir vita að ekki mun aðeins hitta fyrir þá sem hana verðskulda heldur einnig aðra sem ekkert hafa til saka unnið, þá er það samt svo að stundum verður ekki hjá henni komist. Það getur verið óréttlætanlegt að láta harðstjóra óáreitta, jafnvel þó þeir hafi saklausa borgara sína í kringum sig, eins og mannlega skildi. Það að leggja til atlögu við einræðisherra eins og Saddam Hussein, það getur verið skárri kostur af tveimur slæmum, því hinn möguleikinn, að treysta því að hann hvorki hafi nú né útvegi sér síðar þau vopn sem hann vafalítið myndi nota þegar hann sæi þess færi – nú og skilja áðurnefnda almenna borgara enn eftir undir náð og miskunn hans; sá möguleiki getur verið enn verri en það stríð sem ekki er nema mannlegt og almennt virðingarvert að vilja forðast.
Írak er ekki lítið land, um 440 þúsund ferkílómetrar. Til samanburðar má nefna að Bretland er um 240 þúsund ferkílómetrar og lönd eins og Ítalía, Austurríki og Sviss eru til samans um 420 þúsund ferkílómetrar. Nú hefur Vefþjóðviljinn enga reynslu í að leita að gereyðingarvopnum og litla í að fela þau, en engu að síður ímyndar blaðið sér að til dæmis breska ríkisstjórnin myndi hafa einhver ráð með að fela slík vopn í ríki sínu og jafnvel það vel að eftirlitssveit Sameinuðu þjóðanna fyndi þau ekki svo glatt. Og ef sú hugmynd er ekki út í hött hvað Bretland varðar, hvað á þá að segja um Írak? Nú má auðvitað segja, að vart hefðu Sameinuðu þjóðirnar ákveðið að gera menn út af örkinni að leita að vopnum Saddams ef þær hefðu talið það verkefni fyrirfram vonlaust, en engu að síður er umhugsunarvert hversu mikla möguleika slíkar sendinefndir eiga á taka af tvímæli um það hverjum vopnum Saddam Hussein ræður yfir og hverjum ekki. Það álitamál, hvort sendinefnd Sameinuðu þjóðanna er í raun líkleg til að finna þau vopn sem Saddam Hussein hefur haft langan tíma til að fela, hlýtur að minnsta kosti að vera meðal þess sem kemur til skoðunar þegar fólk gerir upp við sig hversu lengi má forðast að athafnir fylgi orðum og gengið verði úr skugga um afvopnun Íraka með þeirri aðferð sem ein er örugg.
Það liggur nú fyrir að ríkisstjórnir landa eins og Bandaríkjanna og Bretlands telja að ekki sé verjandi að bíða lengur með að koma Saddam Hussein og stjórn hans frá völdum. Saddam hafi þráast við svo lengi að ekki verði lengur þolað. Ekki verði lengur búað við þá ógn að slíkur einræðisherra – sem allir vita að fylgir hug sínum eftir ef hann getur – hafi eða afli sér hinna hættulegustu vopna og annað hvort noti þau sjálfur eða komi þeim í hendur þeirra sem það muni gera. Frekara hik muni auk þess senda þau skilaboð um veröldina alla að vestrænar þjóðir muni ekki fylgja kröfum sínum og sjónarmiðum eftir þegar á reyni. Og það eru ekki aðeins Bandaríki Norður-Ameríku og Hið sameinaða konungdæmi Stóra-Bretlands og Norður-Írlands sem hafa komist að þessari niðurstöðu. Svo ólík ríki sem Pólland, Ástralía og Danmörk hafa ákveðið að fylgja þeim með því að senda hermenn og búnað til vígstöðvanna. Önnur ríki, eins og til dæmis Spánn og Portúgal, fylgja þessum ríkjum fast að málum þó ekki veiti þau beina hernaðaraðstoð.
Þó einhverjir kunni að hafa náð að ímynda sér annað síðasta sólarhringinn þá kemur Ísland lítið við sögu þessara atburða. Ísland hefur ekki bannað að þessar þjóðir fari erinda sinna um lofthelgi landsins eða lendi og taki á loft frá Keflavíkurflugvelli ef þurfa þykir. Ef einhver telur það sérstaka yfirlýsingu um stríð og ekkert nema stríð, þá má vekja athygli á því að sama hafa önnur Evrópuríki gert, þar á meðal ríki eins og Frakkland og Þýskaland.
Þó það séu vissulega fleiri ríki sem sem senda hermenn og búnað til bardaga við sveitir Saddams Husseins þá þarf enginn að velkjast í vafa um að það eru Bandaríkin sem bera hitann og þungann af því sem gert er, enda eru það þau sem mest eiga undir því að maður eins og Saddam Hussein sé sviptur þeim meðulum sem hann hefur og kann að öðlast til að vinna óhæfuverk. Það er ekki víst að nokkurt annað land veraldar veki eins heitar tilfinningar um víða veröld. Sérstaklega er skiljanlegt að Evrópumenn hafi tilfinningar til Bandaríkjanna, svo gríðarlegu máli sem þau hafa skipt þjóðir Evrópu í hartnær öld. Tvívegis hafa Bandaríkjamenn sent hermenn sína yfir til Evrópu til að standa við hlið lýðræðisríkja álfunnar þegar þau börðust fyrir lífi sínu. Það þarf enginn að efast um hver örlög síðari heimsstyrjöldin hefði búið lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu ef Bandaríkin hefðu ekki sent milljónir hermanna sinna þeim til bjargar. Það þarf heldur enginn að efast um hvaða ríki það var sem tryggði öryggi þessara sömu ríkja þegar risinn rauði í austri horfði löngunaraugum í vesturátt. Það eru Bandaríki Norður-Ameríku sem hafa staðið vörð um frelsi Vestur-Evrópu, þó það sé vægast sagt misjafnt hversu mikla þakklætisskuld þau ríki telja sig eiga að gjalda vestur um haf.
Með þessu er ekki sagt að á þennan hátt hafi Bandaríkin unnið sér rétt til að fara jafnan sínu fram, að þau ríki sem standa í ríkri þakkarskuld við þau eigi einfaldlega að drúpa höfði í hvert sinn sem Bandaríkin ræskja sig. Því fer vitaskuld fjarri. Jafnvel þó einn maður verði eitt sinn svo lánsamur að ná að bjarga lífi annars, þá eignast hann ekki þann mann þar með. Og ekki einu sinni þó hann geri það oftar. Og ef einhverjum líður betur við að það sé tekið fram, þá er sjálfsagt að meðganga að auðvitað hafa Bandaríkin oft einnig og stundum frekar en ekki haft eigin velferð í huga þegar þau hafa staðið vörð um önnur ríki. En það breytir út af fyrir sig engu. Þó ýmis þjóðfélagsöfl, hér og hvar um Vesturálfu, muni aldrei fyrirgefa Bandaríkjunum varðstöðu þeirra um hinn frjálsa hluta álfunnar á þeim árum sem alræðisríkin vildu ná honum inn fyrir Múr sinn, þá er það bara eins og það er. Slík þjóðfélagsöfl hafa alltaf verið til og verða alltaf til og það er ekki til neins að skaprauna sér á því. Leiðinlegra er hins vegar þegar þessum öflum tekst að smita annað fólk af hugsun sinni, en slíkt gerist auðvitað af og til. En við því er sennilega fátt að gera.
Fyrir hálfu öðru ári var ráðist að Bandaríkjunum. Flestar þjóðir heims lýstu þegar yfir samúð sinni og hétu að veita Bandaríkjunum hvert það lið sem þau mættu í þeirri baráttu sem fram undan væri. Síðan hafa ótal mörg þessara ríkja heltst úr lestinni og verða vitaskuld að vera sjálfráða um það. Eins og áður sagði þá eiga Bandaríkin ekki skilyrðislausa heimtingu á stuðningi við hvaða tiltæki sem þau kunna að vilja hefja. Þó mörg ríki hafi vissulega fulla ástæðu til að telja til þakkarskuldar við Bandaríkin hljóta þau, hvert fyrir sig, að vega og meta réttmæti þess sem farið er fram á hverju sinni. Það er hins vegar staðreynd að ráðist var á Bandaríkin og þau hafa nú snúist gegn þeim sem þau telja ógna öryggi sínu. Engu ríki er skylt að standa með Bandaríkjunum í þeirri baráttu; hverju frjálsu ríki er meira að segja fullkomlega heimilt að beita stjórnmálalegum leiðum til að leggja steina í götu Bandaríkjanna nú þegar þau telja svo mikið í húfi. Hér verður hvert ríki að eiga það við sóma sinn og sannfæringu hvaða afstöðu það tekur.