Þeir segja að ellefuhundruð og þrjátíu ár eða svo séu liðin frá því norrænir menn settust fyrst að á Íslandi og þegar það er haft í huga þá þarf enginn að búast við því að sex ár þyki drjúgur tími Íslandssögunnar. Þess er því tæpast að vænta að í dag verði frí í skólum eða föngum gefnar upp sakir þó svo standi á að sex ár séu liðin frá því útgáfa Vefþjóðviljans hófst. Allt að einu þykir blaðinu það nothæf ástæða til að þakka lesendum sínum samfylgdina; samfylgd sem í ýmsum tilvikum hefur, ef marka má þau bréf sem blaðinu berast, staðið lengur en stundarkorn. Já vel á minnst, þau bréf sem blaðinu berast frá lesendum, Vefþjóðviljinn vill þakka fyrir þau öll, því hvort sem fólk hefur skrifað blaðinu í góðu eða illu þá hafa öll þessi bréf, hvert á sinn hátt, orðið Vefþjóðviljanum vel þegin hvatning. Og þá eru eftir þriðju þakkirnar, en þeim beinir blaðið til þeirra velviljuðu lesenda sinna sem um lengri eða skemmri tíma hafa séð sér fært að leggja Vefþjóðviljanum lið með litlu fjárframlagi. Allur kostnaður við útgáfu blaðsins og önnur tiltæki útgefandans er greiddur með slíkum framlögum einstaklinga og fyrir þau er Vefþjóðviljinn þakklátari en hann lætur uppi frá degi til dags. Blaðið vill jafnframt leyfa sér að taka fram að vilji menn slást í þennan vingjarnlega hóp þá má gera það um sérstakan hnapp á vinstri hluta síðunnar. Er vel við hæfi að útgjaldahnappurinn sé vinstra megin við miðju.
Nei, sex ár eru ekki langur tími í sögu lands. Þó hefur margt breyst á Íslandi síðustu sex ár og ef horft er yfir stjórnmálasviðið hafa breytingarnar verið meiri og betri en títt er um svo skamman tíma. Þannig eru ekki mörg ár síðan hart var deilt innan ríkisstjórnar um það hvort selja mætti ríkisbankana, en eins og menn vita harðneitaði Alþýðuflokkur Jóns Baldvins Hannibalssonar að samþykkja slíka „nýfrjálshyggju“. Það var ekki fyrr en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gengu til þess stjórnarsamstarfs sem enn varir sem tókst að koma hreyfingu á þetta mikilvæga mál. Og nú hafa þau tíðindi orðið, við litla hrifningu stjórnarandstöðunnar, að íslenska ríkið á aðeins smávægilegan hlut í þeim bönkum sem það átti að öllu leyti fyrir örfáum árum. Samhliða þessu hafa skattar verið lækkaðir verulega bæði á fyrirtæki og einstaklinga – þrátt fyrir að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hafi vissulega ítrekað stolið skattalækkunum einstaklinga með því að hækka útsvörin um leið og ríkið hefur lækkað tekjuskattinn. Við þetta bætist svo að erlendar skuldir ríkisins hafa verið greiddar hratt niður.
Þó að þessar ánægjulegu breytingar – sem stóryrðingar myndu eflaust kalla byltingu – hafi orðið á þeim sömu árum og Vefþjóðviljinn hefur snúist í kringum þjóðlífið, þá fer því fjarri að blaðið telji sérstakt samhengi þar á milli. En þó blaðið eigni sér vitaskuld engan heiður af því góða sem gert hefur verið undanfarin ár – og kenni sér svo sem ekki heldur um það sem miður hefur farið – þá leyfir það sér að fagna því marga sem gert hefur verið til að færa Ísland enn í frjálsræðisátt á síðustu árum. Frá fyrsta degi hefur það verið sannfæring Vefþjóðviljans að stjórnvöld eigi að stilla sig sem mest um að skipa málum með lögum og reglugerðum en leyfa borgurunum þess í stað að ráða sem mestu um eigið líf. Blaðið álítur með öðrum orðum eindregið að réttmætust skipun mála sé sú þar sem stjórnvöld standa því síst í vegi að hver maður leiti hamingjunnar eftir þeim leiðum sem hann sjálfur telur vænlegastar. Og með þessum orðum sögðum er fullnægt að sinni sérhverri þörf Vefþjóðviljans til að skilgreina ritstjórnarstefnu sína.
Fyrir nokkru gaf Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, út rit nokkurt, Lögin, eftir franska hagfræðinginn Frédéric Bastiat. Lét félagið þau orð fylgja útgáfunni að þessi 150 ára gamla bók ætti brýnt erindi við lesendur þeirrar tíðar sem leggur enn miklar hömlur á saklaust fólk í öllum löndum og minnkar athafnafrelsi þess og lífsgæði. Og þó jafnan hafi verið rekinn sá varnagli að jafnan væri varlegast að taka lýsingum útgefenda á eigin bókum með tortryggni þess manns sem gert hefur samning við forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar þá hefur svo farið að talsvert hefur gengið á það upplag sem Andríki lét prenta og hélt að dygði til eilífðar. Enn er þó hægt að eignast umrætt kver og í tilefni dagsins býðst útgefandinn til að selja það á hálfvirði hverjum sem hafa vill, svo lengi sem bæði afmælisdagurinn og upplagið endast. Vongóðir kaupendur geta gengið að því tilboði með því að fara inn á undirsíðuna „Frjálst framlag“ og skrá sig þar fyrir 750 króna eingreiðslu og fá þá bókina senda um hæl. Öll slík boð eru dulkóðuð sem sagt er, en þeir sem ekki treysta sér til að eiga viðskipti um lýðnetið geta gengið frá kaupum um hefðbundinn símaþráð, en Andríki hefur símanúmerið 55 17500.