Laugardagur 25. janúar 2003

25. tbl. 7. árg.

Nú vill Samfylkingin komast með puttana í lífeyrissparnað landsmanna. Þingmenn flokksins hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um „átak til að auka framboð á leiguhúsnæði“. Þar sem Samfylkingin er nútímalegur jafnaðarmannaflokkur er ekki lögð fram fimm ára áætlun að hætti forvera flokksins, heldur fjögurra ára framkvæmdaáætlun. Samfylkingin vill ýmsar ráðstafanir til auka framboð leiguhúsnæðis og allar ganga þær vitaskuld út á aukin ríkisafskipti af leigumarkaðnum. Ein þessara snjöllu hugmynda er að leita til lífeyrissjóða um að „styrkja átakið með kaupum á sérstökum húsnæðisbréfum“. Á mannamáli þýðir þetta að þvinga á lífeyrissjóði landsmanna til lélegra fjárfestinga og lækka þannig þær lífeyrisgreiðslur sem sjóðsfélagar fá í ellinni.

Eitt af því sem þingmenn Samfylkingarinnar kvarta yfir er að verð á leiguhúsnæði sé hátt og framboð lítið. Þess vegna á að fara út í opinberar íbúðarhúsabyggingar fyrir bein og óbein framlög skattgreiðenda og lífeyrissparenda. Þetta er ekki síst athyglisvert þegar litið er til þess hvað Samfylkingin hefur gert og lagt til áður. Pólitískur leiðtogi Samfylkingarinnar, sem eins og menn muna er ekki formaður flokksins heldur Ingibjörg Pandóra Gísladóttir, hefur verið borgarstjóri til allnokkurra ára og sem slíkur lagt sitt af mörkum til leiguverðs. Framlag hennar hefur verið að draga úr framboði á íbúðarhúsnæði og hækka verð þess með því að bjóða fáar lóðir á háu verði. Afleiðing þessa heimatilbúna húsnæðisskorts hefur vitaskuld verið hækkað húsnæðisverð og þar með hækkað leiguverð. Þetta helst í hendur.

Tillögur Samfylkingarinnar, meðal annars úr stefnuskránni fyrir síðustu alþingiskosningar, hljóðuðu upp á að fjórfalda skatthlutfall á leigutekjur, úr 10% í 40%. Ef Samfylkingunni hefði orðið að ósk sinni hefði afleiðingin verið sú að húsaleiga hefði þurft að hækka um 50%. Þeir sem greiða 50.000 krónur í leigu nú, myndu þannig greiða 75.000 krónur í sæluríki Samfylkingarinnar. Það er því óhætt að segja að nútímaleg jafnaðarstefna Samfylkingarinnar í leigumálum felist í því að hækka skatta og hækka styrki, auka skortinn og draga svo úr honum með opinberum aðgerðum. Samfylkingarmenn virðast seint ætla að læra að ríkisafskipti eru ekki lausnin, þó þeir tali stundum eins og þeir hafi sagt skilið við sósíalismann og hafi trú á markaðslausnum.