Fimmtudagur 12. desember 2002

346. tbl. 6. árg.

E

HOUSETRAP
Þessir félagar í ofbeldinu hafa lengi verið á aftökulista sænskra vöggustofusósíalista.

nn á ný fæst það staðfest að ekki lengur til venjulegir foreldrar hér á landi. Ríkið hefur tekið börnin af þeim og tekið foreldrana í fóstur í leiðinni. Eða svo má að minnsta kosti ætla af geðshræringunni síðustu daga vegna „grófra ofbeldisleikja“. Hvað ætli það hafi verið endurtekið í mörgum fréttatímum að tölvuleikirnir séu „seldir eftirlitslaust“ og að um þá „gildi engar reglur“? En það sem fréttamönnunum finnst verst af öllu, og fær þá næstum til að gleyma hve „gróft ofbeldið“ er í leikjunum, er að það er heimild í lögum til að setja reglur og koma af stað eftirliti en hún hefur ekki verið nýtt. Já hugsiði ykkur. Það er heimild fyrir rándýru og óþörfu eftirliti á vegum ríkisins sem ekki er nýtt! Hvert er þetta þjóðfélag að fara?

Nú er kunnara en frá þurfi að segja að hægt er að sækja og spila marga þessa leiki á lýðnetinu. Þeir sem ekki hafa aðgang að upplýsingahraðbrautinni geta flutt þá til landsins í brjóstvasa sínum. Hvernig ætlar hið opinbera að fylgjast með þessu? Flestir þessara „grófu ofbeldisleikja“ eru einnig þannig úr garði gerðir að menn þurfa að ná mikilli leikni í þeim til að komast í mesta blóðbaðið. Verður sett upp deild í menntamálaráðuneytinu þar sem leiknustu kerfiskarlarnir á þessu sviði sitja sveittir við að ná sér í vændiskonu og myrða hana með músinni? Og hvað svo? Hvað gerist þótt einhverjir embættismenn fái martröð og segi leikina ljóta? Kannski verða einhverjir unglingar spenntari fyrir þeim, þ.e. leikjunum, en ella. Þá er það líka upptalið.

Þótt hvers kyns vandamálafræðingar og opinberir umboðsmenn trúi því að hægt sé að leysa foreldrana undan allri ábyrgð í þessum efnum með fleiri lögum og reglum og ekki síst auknu umfangi sinna eigin opinberu stofnana þá eru það auðvitað fyrst og síðast foreldrar barnanna sem eiga að hafa auga með því á hvað þau eru að skoða. Hvort sem það er í bókum, blöðum, tímaritum, sjóvarpi eða heimilistölvunum.