Lögreglan kynnti nýlega niðurstöður athugana sinna á notkun eftirlitsmyndavéla í miðbæ Reykjavíkur. Niðurstöðurnar voru á þá leið að glæpum hafði fækkað á sjónsviði myndavélanna en að sama skapi fjölgað utan þess. Lögreglan benti ennfremur á að myndavélarnar spöruðu mannskap og að nýuppkveðinn héraðsdómur hafi hvílt að stórum hluta á myndbandi eftirlitsmyndavélar. Af öllu þessu dró lögreglustjórinn í Reykjavík þá ályktun að fjölga þyrfti myndavélunum, víkka sjónsvið þeirra.
Í þessu sambandi er rétt að benda á að það er eðlismunur á eftirliti lögregluþjóna sem standa sína vakt úti undir beru lofti í Austurstræti og því eftirliti sem beitt er með eftirlitsmyndavélum. Af þeirri einföldu ástæðu að athyglisgáfa og minni lögregluþjóna er takmarkað, rétt eins og annarra manna, þá beina þeir kröftum sínum markvisst að þeim afbrotum og illdeilum sem uppi eru hverju sinni. Eftirlitsmyndavél gerir hinsvegar engan greinarmun á athöfnum einstaklinganna. Af öllum þeim sem lenda innan sjónsviðs vélanna eru því til skráðar heimildir. Með öðrum orðum, lögregluþjónn á vakt í miðbæ Reykjavíkur skrifar ekki skýrslu um hvern einasta einstakling sem þangað leggur leið sína en það gerir hinsvegar myndavélin. Notkun eftirlitsmyndavéla jafngildir því í raun tilefnislausri lögreglurannsókn á fjölda einstaklinga en forsenda slíkra rannsókna hefur hingað til verið sú að sá sem rannsókninni sætir hafi gefið nægjanlegt tilefni til að réttlæta rannsóknina.
Það mikla gagnamagn sem verður til með þessum tilefnislausu rannsóknum verður þannig hluti af skjölum lögreglunnar. Þessum gögnum getur lögreglan svo beitt síðar meir í misjöfnum tilgangi. Þetta er ekki síst ógnvænlegt í ljósi þess að meðferð trúnaðarupplýsinga um einstaklinga í meðförum hins opinbera hefur vægast sagt verið ábótavant og að fram til þessa hefur það verið regla fremur en undantekning að fyrirheit um trúnað við einstaklinginn hafa verið rofin.