Í annan stað verður varla um það deilt að lífræn ræktun og framleiðsla á matvælum hefur jákvæð áhrif á umhverfi okkar gagnstætt þeim tilbúnu efnum sem í mörgum tilvikum eru notuð til þess að stórauka ræktun og framleiðslu, hraða vexti o.s.frv. |
– Leiðari Morgunblaðsins 22. júní 2002 |
Kannski er rétt að byrja á því að biðja leiðarahöfund Morgunblaðsins velvirðingar á því að hér verður nú gerður ágreiningur um það sem hann telur að varla verði deilt um. Og þar með eru einu rökin sem hann tínir til fyrir þeirri fullyrðingu að lífræn ræktun sé umhverfisvæn því miður rokin út í veður og vind. Nema það sé ætlun hans að halda því fram að þar sem tilbúin efni stórauki ræktun og framleiðslu séu þau skaðleg umhverfinu! Það væri svo sem ekki í fyrsta sinn sem svonefnd umhverfisvernd er notuð til að réttlæta óhagkvæmni og sóun.
MBLLOGOEins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins upplýsir í raun gefur lífræn ræktun aðeins brot af þeirri uppskeru sem ná má af sama landrými með notkun tilbúins áburðar og vörnum gegn sníkjudýrum. Það þarf því margfalt meira land undir lífræna ræktun. Það þýðir einfaldlega að ryðja þarf skóga og nýta ósnortna náttúru langt umfram það sem nú er gert. Þetta vandamál mætti að vísu leysa með því að draga úr áti grænmetis og ávaxta um tugi prósenta og setja búfénað einnig í stórkostlega megrun. Varla er það ætlunin. En lífræn ræktun hefur fleiri „jákvæð áhrif á umhverfi okkar“. Vegna þess hve lífræn ræktun skilar litlu í samanburði við hefðbundnar aðferðir fer mikil orka til spillis. Þegar sá þarf í margfalt stærri akur til að ná sömu uppskeru leiðir af sjálfu sér að meiri orku þarf til þess arna. Dráttarvél bóndans þarf að plægja stærra svæði, bera þarf ómeðfærilegan lífrænan húsdýraáburð á stærra svæði og þegar komið er að uppskeru þarf að sækja hana á stærra svæði. Að því gefnu að dráttarvélar og önnur landbúnaðartæki gangi ekki á hugsjóninni um lífræna ræktun einni saman heldur noti hefðbundið eldsneyti hefur lífræn ræktun stóraukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda í för með sér. Eins og lesendum Morgunblaðsins er kunnugt hefur blaðið heimildir manns fyrir því að gróðurhúsalofttegundir muni leiða til svo mjög hækkandi hita andrúmslofts jarðar að ísbreiða leggist yfir allt norðurhvel hennar. Þessi heimildarmaður Morgublaðsins hefur það einkum sér til ágætis að geimverur námu hann brott og skiluðu aftur með sérstakri ígræðslu við eyra sem jafnvel heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar tækist vart að skrásetja í gagnagrunn.
Það er því allt annað en óumdeilt að lífræn ræktun sé jákvæð fyrir umhverfið. Og Vefþjóðviljinn er jafnvel ekki einn um að efast um fullyrðingar Morgunblaðsins. Nóbelsverðalaunahafinn og jarðræktarfræðingurinn Norman Borlaug var spurður um meint jákvæð áhrif lífrænnar ræktunar á umhverfið fyrir nokkrum misserum og svar hans var eftirfarandi: „Þetta er fráleitt. Þótt við nýttum allan lífrænan úrgang, húsdýraáburð, lífrænt sorp frá manninum og rotnandi plöntuleifar, til að bæta jarðveg væri ekki mögulegt að fæða meira en 4 milljarða manna. Auk þess myndi lífrænn landbúnaður kalla á aukið landrými og við yrðum að ryðja margar milljónir ekra af skógi til þess. Við notum um það bil 80 milljónir tonna af köfnunarefnisáburði á ári. Ef við ætlum að framleiða þetta magn með lífrænum hætti þurfum við 5 til 6 milljarða nautgripa til að fá nægan húsdýraáburð. Hvað ætli við þyrftum eiginlega að fórna miklu landi til að fæða allar þessar skepnur? Þetta stenst auðvitað ekki.“
Og Borlaug bætti við: „Ef fólk vill endilega trúa því að lífrænt ræktaðar afurðir séu bætiefnaríkari getur það gert það mín vegna. Það eru hins vegar engar rannsóknir sem styðja þá fullyrðingu að lífrænar afurðir séu hollari. Planta gerir engan greinarmun á því hvort nítrat jón kemur úr tilbúnum áburði eða lífrænum úrgangi. Ef einhverjir neytendur trúa því að það sé betra fyrir heilsuna að kaupa lífrænar afurðir bið ég þeim Guðs blessunar. Þeir mega kaupa þær og borga meira, þeir hafa fullt frelsi til þess. En látið það vera að segja öðrum að við eigum möguleika á því að fæða mannkynið án tilbúins áburðar. Að öðrum kosti fer gamanið að kárna.“