Forsætisráðherra hefur oftar en flestir aðrir menn vakið máls á hugsanlegum kostum og göllum við aðild Íslands að Evrópusambandinu á síðustu árum. Varla flytur hann svo ræðu að þau mál beri ekki á góma. Viðbrögðin við þessari umræðu ráðherrans hafa ekki látið á sér standa; Evrópusambandssinnar segja hann standa gegn umræðum um þessi mál. Þeir ganga jafnvel svo langt að halda því fram að þessi mál hafi aldrei komist „á dagskrá“, að því er virðist vegna þess að forsætisráðherra ráði þessari „dagskrá“ og þybbist við. Og þó að málið sé sífellt á dagskrá í eigin ræðum ráðherrans kemst það aldrei á hina „dagskrána“, þessa sem Evrópusambandssinnana langar að tala eftir. Allur er þessi málflutningur auðvitað óskiljanlegur flestu fólki, enda hafa víst fáir gert sér grein fyrir að einn tiltekinn ráðherra þyrfti að samþykkja mál á tiltekna ímyndaða „dagskrá“ til að aðrir menn gætu vakið á þeim athygli eða jafnvel rætt þau í þaula.
ESBEn ráðherrann hefur ekki látið sér nægja að ræða Evrópumálin sjálfur, nú hefur hann í tvígang fengið rannsóknarstofnanir á vegum Háskóla Íslands til að kanna ákveðna þætti varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta virðist ekki síst gert í þeim tilgangi að svara kalli Evrópusambandssinnanna um það sem þeir kalla málefnalega umræðu. Og hvað skyldi nú vera betra fyrir málefnalega umræðu en að auðvelda mönnum að ræða mál út frá staðreyndum, eða að minnsta rökstuddum niðurstöðum? Jú, þessu hafa Evrópusambandssinnar svarað. Evrópusambandsumræðan er betur komin án upplýsinga frá stofnunum Háskólans en með þessum upplýsingum. Þær upplýsingar sem komið hafa fram um lítinn áhuga landsmanna á inngöngu að gefnum nokkrum lítt umdeilanlegum forsendum og þær upplýsingar að kostnaður Íslands við aðild yrði á bilinu rúmir átta milljarðar króna til rúmir tíu milljarðar króna eru harla lítils virði ef marka má sjóðheita áhugamenn um fleiri starfstækifæri fyrir sig og kollega sína í Brussel.
Einn þingmaður Samfylkingarinnar lét sig ekki muna um að dæma skýrslu Hagfræðistofnunar, um kostnað ríkissjóðs af aðild, einskis virði í umræðunni um þessi mál. Þingmaðurinn var á þeim örfáu mínútum sem liðu frá því skýrslan kom út og þar til hann kvað upp dóm sinn búinn að finna á henni ýmsa annmarka. Að vísu kom ekkert fram um hverjir þessir annmarkar væru, enda ekki í anda Evrópusinna að rökstyðja mál sitt þegar Evrópubandalagsaðild ber á góma. Þar nægir „Evrópuhugsjónin“ ein sem „röksemd“. En ef þingmaðurinn háttvirtur, Bryndís Hlöðversdóttir, er ósáttur við skýrsluna og telur hana aðeins ómerkilegan áróður í samsæri Háskólans og forsætisráðuneytisins er eðlilegast að hún ræði það við félaga sinn úr röðum jafnaðarmanna, Jón Þór Sturluson hagfræðing við Hagfræðistofnun. Þingmaðurinn hefur líklega ekki komist svo langt í skýrslulestrinum áður en hann var búinn að afskrifa skýrsluna, en aftast í henni kemur fram að Jón Þór þessi er, ásamt forstöðumanni stofnunarinnar, höfundur að skýrslunni. Og þetta er sami Jón Þór og hefur verið formaður ungra jafnaðarmanna, en það er félagsskapur sem seint verður talinn harkalega andsnúinn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Bryndís þingmaður, sem vitaskuld gasprar ekki tóma vitleysu, hlýtur að upplýsa fljótlega um það hvaða atriði voru svo skelfilega illa unnin í skýrslunni að hún sé alveg gagnslaus. Og í framhaldi af því má gera ráð fyrir að hún upplýsi hvernig nefndur hagfræðingur við Hagfræðistofnun tengist hinu óskaplega samsæri Háskólans og forsætisráðuneytisins gegn Evrópusambandsaðild Íslands. Það má mikið vera ef sú útskýring þingmannsins verður ekki efniviður í svæsinn reyfara fyrir næsta jólabókaflóð.