Fáir flokkar, ef nokkrir, sem reynt hafa fyrir sér með framboð til Alþingis hafa reitt sig eins á auglýsingaskrum og Samfylkingin. Með framboði sínu og gegndarlausri eyðslu í auglýsingar sannaði Samfylkingin það, sem Ástþór Magnússon hafði áður sýnt fram á, að fjáraustur dugar ekki endilega til sigra í kosningum.
Hvort sem það er vegna þungrar greiðslubyrði af eyðslulánunum frá síðustu kosningum eða af öðrum ástæðum hefur framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar þó líklega ekki fengið ímyndarráðgjafa til að ráðleggja sér um tímasetningu á grein sinni sem birtist í Morgunblaðinu í gær undir fyrirsögninni „Sigurganga þriðju leiðarinnar“. Í greininni útskýrir framkvæmdastjórinn hvernig jafnaðarmenn hafi endurskilgreint sjálfa sig, stefnu sína og vinnubrögð og uppskorið ríkulega í kosningum. Þetta hefur lesendum Morgunblaðsins þótt djörf kenning eftir af hafa lesið forsíðufrétt blaðsins um sögulegt afhroð jafnaðarmanna í kosningum í Noregi nokkrum klukkustundum áður.