Þriðjudagur 11. september 2001

254. tbl. 5. árg.

Hvað varð um orkuskortinn?, spyrja Jerry Taylor og Peter VanDoren í grein á heimasíðu CATO Institute. Það vantaði ekki umfjöllunina um „orkuskortinn“ í Kaliforníu síðasta vetur. En bæði umfjöllunin og orkuskorturinn virðast hafa farið í langt sumarfrí, jafnvel lengra en Bush forseti sem hafði áhyggjur af skortinum og kynnti sérstaka áætlun til að bregðast við honum. Fleiri stjórnmálamenn og ekki síður fjölmiðlamenn lýstu „vandanum“ með miklum tilþrifum. Ýmsir töldu jafnvel að bensínverðið í Bandaríkjunum myndi fara í 3 dali á gallon eða 78 krónur á lítrann. Þ.e.a.s. upp í 78 krónur en stjórnvöld í Bandaríkjunum líta ekki svo á að menn eigi að afhenda ríkinu allar eigur sínar gegn því að fá að eiga bíl og kaupa bensín á hann. Þar er skattheimtu á bíla og eldsneyti stillt í hóf, a.m.k í samanburði við Ísland.

Orkuverðið hefur nú lækkað á ný – eins og það hefur alltaf gert til lengri tíma litið. Kreppan er horfin og allar lærðu greinarnar í blöðunum um ástæður hennar og framhald voru til einskis.