Össur Skarphéðinsson lýsti um helgina yfir andstöðu við prófkjör innan „Samfylkingarinnar“ fyrir næstu þingkosningar. Vafalaust er þetta að hluta til gert af tillitssemi við Svan Kristjánsson sem á við það króníska vandamál að stríða að kosningaspár hans tapa fyrir kosningaúrslitum. Svanur sagði fyrir síðasta prófkjör „Samfylkingarinnar“ að „prófkjör Samfylkingarinnar væri búið til af körlum og fyrir karla“ og hann hafði jafnframt trú á að Jakob Frímann Magnússon næði góðum árangri. Það brást ekki að konur röðuðu sér í fjögur af fimm efstu sætunum og Jakob Frímann átti jafnvel ekki möguleika á að hafa Össur undir í prófkjörinu eins og flestir aðrir þáttakendur. Í þessu prófkjöri beið Össur Skarphéðinsson nefnilega herfilegan ósigur fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur í baráttu um fyrsta sæti listans og mátti engu muna að hann húrraði niður í 5. sæti listans.
Það væri gaman að velta fyrir sér hver viðbrögðin yrðu, ef formenn til dæmis Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks lýstu því yfir nokkrum árum fyrir kosningar að flokkar þeirra ættu bara alls ekki að halda prófkjör þegar að kosningum kæmi. Ætli þá færu ekki „lýðræðissinnarnir“ af stað; hástemmdir leiðarar yrðu skrifaðir og pistlahöfundar yrðu líklega stórorðir um „flokksræði“, „einræðistilburði“ og „valdhroka“. En einhverra hluta vegna virðast menn ekki kippa sér upp við þó formaður „Samfylkingarinnar“ vilji engin prófkjör þegar forystumenn flokksins velja hvern annan á lista. Hugsanlega vita menn líka að hingað til hafa sameiningarsinnaðir vinstri menn einkum notað prófkjör til þess að hafa eigin flokksmenn að fíflum.
Menn muna nefnilega eftir „lýðræðislegum prófkjörum“ vinstri manna. Fyrir síðustu þingkosningar kepptu til dæmis Sigbjörn Gunnarsson og Svanfríður Jónasdóttir um efsta sæti „Samfylkingarinnar“ í Norðurlandskjördæmi eystra. Sigbjörn sigraði en Svanfríður varð í öðru sæti, sem ekki hefði komið henni á þing. Flokksforystan var ekki ánægð með þetta val norðlenskra flokksmanna og tók í taumana. Svanfríður var því bara samt í fyrsta sæti og hún er nú á þingi. Og Sigbjörn Gunnarsson, þessi sem kjósendur í prófkjörinu völdu í fyrsta sæti, hann situr nú norður í Mývatnssveit og starfar þar á hreppskrifstofunni. Sigbjörn varð reyndar fimmtugur í vikunni og Össuri hefur ef til vill þótt það virðingarvottur við afmælisbarnið og hæfileg afmæliskveðja að hallmæla prófkjöri.
Og prófkjörin í Reykjavík, þau hafa nú verið eins og þau hafa verið. R-lista „prófkjörin“ eru nefnilega einnig til marks um samfylkingarlýðræði í verki. Menn, sem njóta lítils stuðnings og hljóta fá atkvæði, menn eins og til dæmis Alfreð Þorsteinsson, þeir setjast í örugg sæti og verða áhrifamestu borgarfulltrúarnir. Aðrir menn sem njóta víðtækari stuðnings og fá fleiri atkvæði, eins og til dæmis Árni Þór Sigurðsson, þeir setjast í vonlaus sæti og falla úr borgarstjórn. Og höfðinginn sjálfur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hún er lýðræðislegust allra og fer bara alls ekki í prófkjör. Hún velur sér bara sæti og sest þar niður. Og velur meira að segja sjálf annan mann með sér á listann. Og sá maður, hann þarf ekki að fara í prófkjör heldur.
Þannig að Össur er varla að óttast um sinn eigin hag í prófkjöri. Að minnsta kosti ef miðað er við gengi hans í prófkjörum í áranna rás. Honum hefur nefnilega alltaf vegnað fremur illa í prófkjörum og ætti hann því að vera öruggur um gott sæti hjá „Samfylkingunni“.